149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

tilkynning.

[13:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil gera athugasemd við að forseti hafi kynnt þennan möguleika áðan, boðið mönnum upp á að láta greiða atkvæði um þetta, ef þrír menn æsktu þess, en lýsir því nú yfir að það sem hann boðaði hér fyrir fáeinum mínútum sé ekki valkostur. Þetta þykir mér benda til þess að skýringar forseta almennt séu nokkuð þversagnakenndar og ljóst, eins og komið hefur fram, að ekki lá fyrir það formlega samkomulag sem hefði þurft til þess að forseti gæti gengið fram með þeim hætti sem hann reynir að gera hér.

Loks vil ég höfða til þess að forseti hljóti nú að vilja engu að síður láta þingstörfin ganga þolanlega fyrir sig þrátt fyrir allt sem á undan er gengið af hálfu forseta Alþingis varðandi túlkun þingskapa og leitast við að leysa þetta mál með því að leyfa þingmönnum að tala, þótt ekki væri nema nokkrar mínútur. Er til of mikils mælst af (Forseti hringir.) forseta Alþingis að leyfa þingmönnum að tjá sig um eins stórt mál og samgönguáætlunin er?