149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[13:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Ég held áfram ræðu minni. Ég þakka hæstv. forseta kærlega fyrir að leyfa mér að nýta mér þessar tíu mínútur. Ég setti mig á mælendaskrá hér sl. þriðjudag um samgönguáætlun. Ég færðist aftar á listann og í gærdag sá ég að ég var mjög seint á dagskrá og bjóst við að ég myndi tala um miðnætti eða upp úr því. Ég var búinn að reikna það út af því að forseti tilkynnti að umræðan yrði fram eftir kvöldi. Ég var, og er, að undirbúa mig, en þá var allt í einu komið fundarhlé. Ég hafði ekki hugmynd um það. Ég var að undirbúa mig undir tíu mínútna ræðu. Þá er gert fundarhlé og þá var ákveðið að stytta mælendaskrána, eins og við höfum orðið vör við. Ég var auðvitað tilbúinn með tíu mínútna ræðu, og er enn, svo ég haldi nú áfram með hana. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Herra forseti. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar beinir í áliti sínu þeim tilmælum til ráðherra í ítarlegu máli að útfæra nánar og á tiltekinn hátt í stórum dráttum þá stefnu sem nefndin hefur mótað, þ.e. að flýta framkvæmdum á ákveðinn hátt í samgönguáætlun með því að leggja til að þær verði fjármagnaðar með þeim hætti sem þar er frá greint. Ég get tekið undir með meiri hlutanum að unnið verði markvisst að því að bæta vegakerfið og samgöngur eins hratt og kostur er með tilliti til hagkvæmni, markmiða í loftslagsmálum, jafnræðis og öryggissjónarmiða.

Fyrirsjáanleg stöðvun í jarðgangagerð eftir að Dýrafjarðargöngum er lokið mun koma harkalega niður á mörgum byggðarlögum úti á landi. Þarf ekki að nefna nema göng til Seyðisfjarðar sem eru lífsnauðsynleg fyrir eflingu byggðar og öryggi fyrir íbúa á Seyðisfirði og gesti sem þar koma til landsins. Halda verður bráðnauðsynlegri jarðgangagerð áfram.

Í áliti meiri hlutans, sem ég styð með fyrirvara, er gert ráð fyrir að þessu verði fram haldið, að jarðgangagerð muni ekki stöðvast. Gert er ráð fyrir hóflegri álagningu veggjalda í ákveðnum jarðgöngum.

Þegar menn tala um veggjöld var um það rætt í nefndinni að veggjöld gætu verið undir 150 kr. á skiptið og í mesta lagi eitthvað undir 200 kr. í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Ég gerði fyrirvara þegar ég skrifaði undir álitið og tek fram að fyrirvarinn byggist á því að veggjöldin verði ásættanleg upphæð. Ég vara líka við því að veggjöld verði lögð á margsinnis á einhverri leið, eins og t.d. frá Hornafirði til Reykjavíkur. Ég vil sjá það áður en ég lýsi stuðningi málið þegar það birtist hér síðar á þessu ári. Ég vil sjá upphæð veggjaldanna. Ég vil sjá upphæð margfeldisáhrifanna sem lenda munu á íbúum landsbyggðarinnar og jafnvel höfuðborgarinnar. Ég vil koma í veg fyrir að menn borgi þau oft innan höfuðborgarsvæðisins eða á leið til höfuðborgarinnar, ég vil að því verði stillt í hóf.

Ég vil einnig benda á þann augljósa kost við þessar hugmyndir að láta gesti sem hingað koma, þ.e. ferðamenn, greiða og taka þátt í uppbyggingu vegakerfisins. Í Hvalfjarðargöngunum var svo komið að næstum helmingur af tekjunum kom frá ferðamönnum, 40%. Það væri kostur að láta gesti greiða hluta af því.

Ég vil sjá afsláttarkjörin. Ég vil sjá hvernig þau verða útfærð. Það er líka í fyrirvara mínum. Ég vil einnig sjá þjóðarsjóðinn sem áætlað er að stofnsetja. Ég vil fá úr honum upphæðir sem duga fyrir bráðnauðsynlegum framkvæmdum, ég nefni Sundabrautina sem við erum búin að bíða eftir í áratugi.

Ég þakka forseta kærlega fyrir að leyfa mér að ljúka við ræðu mína.