149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Nú líður að lokum meðferðar þings á þingsályktunartillögu um fimm og 15 ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 annars vegar og 2019–2033 hins vegar. Ég hef áður greint frá innihaldi nefndarálits minni hluta og ætla því ekki að fara aftur ítarlega í þá umfjöllun sem þar er að finna. Ég ætla frekar að safna saman þeim álitaefnum sem standa upp úr eftir umfjöllun um málið hér í þingsal síðustu tvo daga.

Samfylkingin vekur athygli á að sú staða sem hér er uppi í samgöngum landsins, ónýtt vegakerfi, ónægt öryggi vegfarenda og óboðleg framkoma við íbúa landsbyggðarinnar vegna ótraustra samgangna, er alfarið í boði stjórnvalda. Á tímum uppgangs í samfélaginu í kjölfar þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tókst að forða okkur frá þjóðargjaldþroti hafa ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og fylgiflokka Sjálfstæðisflokksins kosið að svelta svo innviði okkar, þar á meðal samgöngukerfið, að segja má að neyðarástand ríki á vegum landsins. Samfylkingin gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa með ákvörðunum sínum vanrækt algjörlega að sinna þessum innviðum samfélagsins á uppgangstímum. Tekur Samfylkingin þannig undir raddir allra þeirra gesta sem mættu fyrir nefndina við meðferð samgönguáætlunar og kváðu umtalsvert átak þurfa í vegaframkvæmdum um allt land. Uppsafnaður vandi í samgöngum á Íslandi er öllum ljós og verður að bregðast við honum án frekari tafa.

Þess vegna verður að segjast eins og er að tillögur meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um að fresta enn frekar brýnustu verkefnum sem Vegagerðin hefur sagt að fara verði í eru vægast sagt ábyrgðarlausar. Stjórnvöldum ber skylda til að tryggja öruggar samgöngur. Þá ber stjórnvöldum einnig skylda til að standa við orð sín um samdrátt losunar gróðurhúsalofttegunda, en þar ber einkabíllinn mesta ábyrgð. Hvorugu þessara verkefna sinnir ríkisstjórnin. Nú, þegar við greiðum atkvæði um breytingartillögu við framlagða samgönguáætlun, kemur í ljós hvaða stöðu ríkisstjórnarflokkarnir taka með fólkinu í landinu og þeim gestum sem landið heimsækja, að ótöldum heiminum öllum, umhverfinu og loftslaginu.

Í tillögum minni hluta felst að farið verði í brýnustu framkvæmdir til að tryggja öryggi landsmanna á vegum úti og að þær framkvæmdir, sem Vegagerðin hefur verðmetið að kosti um 13 milljarða á ári hverju, verði fjármagnaðar úr okkar sameiginlegu sjóðum með skattfé. Í þeirri tillögu felst einnig að farið verði í raunverulegar umbætur á almenningssamgöngum landsins, hvort tveggja í dreif- og þéttbýli. Er þar um að ræða framlag ríkisins til hins nauðsynlega verks sem borgarlína er, sem öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þvert á stjórnmálaflokka, hafa sammælst um að fara verði í. Samfylkingin tekur heils hugar undir það. 13 milljarðar á ári eru vissulega miklir fjármunir, en í tillögu minni hluta er útfært hvernig stjórnvöld geta staðið að þeirri fjármögnun án þess að leggja frekari skatta og gjöld á allan almenning í landinu.

Ekki skal gleyma því að það hættuástand sem nú er á vegum úti leiðir til kostnaðar vegna umferðarslysa sem nemur 40–60 milljörðum á hverju einasta ári. Sérfræðingar sem kynnt hafa okkur staðreyndir máls segja að vegabætur muni strax hafa veruleg áhrif á þann kostnað og muni mögulega spara okkur tugi milljarða á hverju ári. Verkefnin munu því borga sig upp fyrr en varir. Það er staðreynd, kæri þingheimur. Veggjöld á almenning virðast því óþörf.

Við jafnaðarmenn höfum frekar aðhyllst þá stefnu að þeir greiði sem geta á meðan frjálshyggjufólk, í hvaða flokki sem það finnst, hefur frekar aðhyllst þá stefnu að þeir borgi sem nota. Þannig vilja frjálshyggjumenn almenna skattheimtu á allan almenning, eins og stjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn leggja nú til, þannig að ýti óhjákvæmilega undir ójöfnuð, en það er alveg ljóst að 400 kr. meðalgjald á meginæðar í kringum Reykjavík og í öll jarðgöng á Íslandi, sem og á ekinn kílómetra, mun leggjast þyngst á þá einstaklinga sem lægstar hafa tekjurnar og þurfa á hverjum degi að sækja vinnu, nám eða heilbrigðisþjónustu, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að allt tal um að þetta sé gert í umhverfisskyni er tómt hjóm, enda er því haldið fram að það sé svo hvetjandi fyrir íbúa landsins til að skipta úr bensín- og olíubílum í rafbíla. En þau rök duga skammt þegar hugað er að jöfnuði, enda eru það einnig þeir efnameiri sem eiga þess frekar kost að fjárfesta í nýjum og dýrum rafknúnum bílum. Þeir efnaminni aka áfram á gömlu bensínbílunum sínum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og eiga enn síður möguleika á að skipta yfir í nýja rafknúna bíla eftir álagningu frekari skatta á þá.

Hugmyndir stjórnarflokkanna eru á þá leið að leggja á almennan vegaskatt vegna orkuskipta sem þá er lagður á hvern ekinn kílómetra. Áfram greiða þeir skatt vegna þess sem nota bensín- og olíudrifna bíla og munu þeir að auki greiða veggjöld á vegum og í göngum landsins. Þannig verður þreföld skattlagning á ákveðna hópa í boði ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Það er engin skömm að því að breyta um kúrs, eins og sagt er, sagði hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson, í ræðu sinni hér fyrr í dag. Það er virðingarvert að hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs viðurkenni þann viðsnúning sem sá flokkur tekur með þeim tillögum sem hér eru lagðar til um vegaskatta þvert á landsfundarsamþykkt þess flokks.

Við skulum ekki gleyma því að núverandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, er líklega eini þingmaðurinn sem staðið hefur fastur á sinni jákvæðu afstöðu til álagningar vegaskatta á almenning í landinu, enda er hann höfundur þess sem við erum að fara að greiða atkvæði um síðar í dag. Þessi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur þannig stýrt vinnunni við samgönguáætlun í höfn, en mögulega er það ekki alveg sama höfn og samgönguráðherra Framsóknarflokksins stefndi í.

Vert er að minna á að í aðdraganda kosninga 2017 var fullyrt í kosningaþætti ríkissjónvarpsins að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi væru á móti veggjöldum. Sama var upp á teningnum hjá formanni og hæstv. samgönguráðherra Framsóknarflokksins sem sagðist einnig alfarið vera á móti veggjöldum. Viðsnúningurinn virðist hafa átt sér stað í öllum þremur ríkisstjórnarflokkunum.

Herra forseti. Hvar erum við stödd? Jú, nú er verið að keyra í gegn samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar með breytingartillögum og tilmælum umhverfis- og samgöngunefndar þar sem ekki hefur verið hlustað á ákall landsmanna allra um forgangsröðun brýnustu verkefna vegna hættu á vegum úti. Það verk er sett á bið á meðan unnið verður næstu misseri að hugmyndum samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins um álagningu vegaskatta á Íslandi.

Herra forseti. Öryggi landsmanna má ekki bíða. Við í Samfylkingunni leggjum því til breytingar á samgönguáætlun þannig að brýnustu verkefni í samgöngumálum samkvæmt Vegagerðinni, sem hefur töluvert um málið að segja, komi til framkvæmda, hvort heldur það eru nýframkvæmdir eða uppbygging vegakerfis. Einnig leggjum við til stórsókn í almenningssamgöngum vegna þess að við skuldum almenningi í nútíð og framtíð það að við tökum saman höndum, bætum þetta kerfi og tryggjum öryggi landsmanna.