149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það verða vissulega tímamót ef svo fer fram sem horfir, að Alþingi sameinist um að senda þau skilaboð til framkvæmdarvaldsins að hér verði farið í stórkostlega uppbyggingu í samgöngukerfinu á grundvelli viðbótargjaldtöku þar sem við flýtum framkvæmdum svo um munar og sjáum gríðarlegar umbreytingar á næstu árum. Eftir þessu er kallað um allt samfélagið, þótt útfærslan sé auðvitað umdeild og er bara eðlilegt að umræða sé tekin um slíkt.

Segja má að flestir séu sammála. Mér þykir vandræðagangur margra þingmanna í minni hlutanum endurspeglast í því að menn eru að reyna að þyrla upp moldviðri, tortryggja mál og eru allt of oft staddir í einhverjum smáatriðum og útúrsnúningum.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talar t.d. mjög fjálglega um að þetta séu eingöngu framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og að þær hafi ekki fengist ræddar að öðru leyti nema gjaldtaka komi til greina. Það er auðvitað alrangt. Samgönguáætlun stendur eins og hún stendur og innan Reykjavíkurborgar, þar sem flokkur hv. þingmanns er í meiri hluta, hefur borgarstjóri verið að ræða sérstaka gjaldtöku á framkvæmdir innan höfuðborgarinnar. Sú umræða hefur ekki komið upp í nefndinni. Áhrifin af þessum framkvæmdum ná þó inn á höfuðborgarsvæðið, samkvæmt þeim hugmyndum sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur sameinast um.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sagði einnig að við skiluðum auðu þegar kæmi að borgarlínu. Það er alrangt og það veit þingmaðurinn að er bara villandi umræða. Komið er vel inn á það í nefndarálitinu. Menn vita það líka, eða ég geri ráð fyrir því, að viðræður eru í gangi milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðuneytisins um hvernig ráðist verði í umfangsmiklar umbætur í samgöngumálum innan höfuðborgarsvæðisins og þá sérstaklega innan Reykjavíkurborgar þar sem menn staldra við og ræða mikið til að mynda slys á Hringbraut sem er eðlilegt að sé rætt þar sem ekið var á ungt barn. Okkur bregður við. En menn stoppa ekki við það í umræðunni að á hverju einasta ári slasast fólk mjög alvarlega í umferðinni í Reykjavík. Margir á hverju ári bera viðvarandi og varandi örkuml eftir slys á höfuðborgarsvæðinu. Hvers vegna? Vegna þess að ekki hefur fengist í gegn að vinna þar að sómasamlegum endurbótum á samgöngumálum.

Hér var nefnt að notendagjöld yrðu hækkuð hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það segir sami flokkurinn og hefur þegar lagt á innviðagjöld í Reykjavík. Hann hefur staðið að því að hækka þar gjöld stórkostlega og verð á íbúðarhúsnæði án þess að nokkuð liggi fyrir um hvernig fara á í framkvæmdir, í hvað á að eyða þeim gjöldum. Þá er byrjað að innheimta þau með tilheyrandi áhrifum á kannski einmitt þá sem minnst mega sín í íslensku samfélagi. Hræsnin í umræðunni fer í taugarnar á mér.

Flokkur fólksins er alveg sérstakt umtalsefni. Það var ekki beinlínis uppbyggilegt að hlusta á hv. þm. Ingu Sæland sem lagðist gegn gjöldum í stað þess að berjast áfram fyrir útfærslum sem mættu verða að veruleika. Það var svolítið önnur nálgun hjá hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni, sem var einu sinni í Flokki fólksins, af því að hann hefur einmitt rætt við mig og við höfum rætt það að þegar kæmi að útfærslunni myndum við láta einhver afsláttarfargjöld sérstaklega vera til eldri borgara, til öryrkja, eins og við gerum í mörgum tilfellum, til að mynda í sund og almenningssamgöngur. Ég mun leggja mig fram um það og ég veit að um það verður samstaða í meiri hlutanum að við nálgumst þá hópa sem minna mega sín þannig að þetta verði ekki of íþyngjandi á þeim bænum.

Oft er horft á kostnaðinn í þessari umræðu en ekki ávinninginn. Hvað kostar þetta mig? Það er eðlilegt. Fólk stoppar við það. Hvað kostar þetta mig sem fer hér reglulega á milli?

Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hefur farið mjög vel yfir það hvar ávinningurinn liggur, hvað það er í raun eins og lagt er upp með lítill kostnaður af heildarútgjöldum við að reka bíl. Þannig nálgumst við málið. Við ætlum að hafa þetta hófleg gjöld. Við í meiri hlutanum segjum í nefndaráliti að mikilvægt sé að ávinningurinn verði meiri en nemur gjaldtökunni. Við það ætlum við að standa. Það er útfærsluatriði sem nú er unnið að í samgönguráðuneytinu. Við ætlum líka að nálgast jöfnuð meðal landsmanna og þar með að hnekkja þeirri mýtu sem hér er haldið fram af þeim flokkum sem hafa ekki náð sér í þingmenn utan af landi og eru að reyna að róa á mið á höfuðborgarsvæðinu og slá ryki í augu almennings á þessu svæði um að þetta verði bara gjaldtaka bundin við þetta svæði, sem er alls ekki hugmynd þeirra sem að þessu standa, heldur einmitt það að jafna gjaldtöku þannig að þetta verði landsátak, átak allra.

Þetta er fyrst og fremst átak til að greiða fyrir umferð, draga úr mengun, stytta ferðatíma og gera þetta hratt, miklu hraðar en efni standa annars til og miklu betur. Þannig eru þær hugmyndir sem hafa verið ræddar innan meiri hluta nefndarinnar að þar sé ekki verið að horfa til þess hvað umferðartölur akkúrat í dag segja til um hvort mislæg gatnamót eigi að koma eða tvöföldun eða 1+2 vegur hér og þar, heldur leyfum við okkur að vinna okkur fram í tímann, mörg ár fram í tímann. Við þurfum ekki að mæta aftur milli Hveragerðis og Selfoss eftir nokkur ár með tæki og mannskap til að rífa upp jarðveg og vinna aftur á sömu slóðum. Við klárum þetta. Þessi leið getur leyft okkur það. Það er valkostur, en það eru aðrar leiðir mögulegar í þessu.

Við þurfum einnig að horfa til annarra innviða, eins og komið hefur verið inn á. Í samgöngumálum ber að nefna t.d. hafnir og flugvelli, en svo erum við líka með hjúkrunarheimili, velferðarkerfi og annað þar sem alls staðar er kallað eftir meira fjármagni. Það eru nálganir sem munu taka lengri tíma en sjálfsagt að skoða og forgangsraða í einhverja mikilvæga málaflokka. Það er aftur enginn annar valkostur sem býður upp á jafn mikla þátttöku þeirra ferðamanna sem ferðast hér um að taka þátt í þessari uppbyggingu með okkur.

Málið er gríðarlega brýnt. Ef við værum að horfa á þetta í samanburði við eitthvað annað í samfélaginu þar sem við bregðumst við alvarlegum hlutum væri ekki hægt að líkja þeim tolli sem umferðin tekur hjá landsmönnum öllum, samfélaginu öllu, við annað en almannavarnaástand. Þess vegna viljum við fara þessa leið. Það er þess vegna sem við viljum bregðast við strax, þó að við séum tilbúin að skoða aðrar leiðir og ræða skynsamlegar útfærslur eins og ég hef komið inn á.

Það er mikilvægt að hafa ekki þrönga hagsmuni í þessu fyrir okkur, vera minnug þess að við erum ein þjóð, fámenn þjóð sem býr í stóru landi. Verðmætasköpun á sér stað um allt land. Hin opinbera þjónusta hefur verið að mörgu leyti bundin við þetta landshorn. Við þurfum að taka tillit til þess. Við þurfum að greiða fólki leið, hvort sem er í flugi, á sjó eða á landi til að komast í þá þjónustu sem hingað hefur verið færð miðlæg.

Mér finnst kannski fátt ömurlegra en umræðan hjá fámennum sveitarfélögum þar sem maður tekur þátt í umræðunni og menn horfa á hana með nærsýnisgleraugum og segja: Það er búið að laga hérna til okkar. Af hverju eigum við að fara að borga? Ja, það er af því að við eigum svo mikið eftir og við verðum að líta á okkur sem heild í þessu sem öðru.

Ég ítreka nálgun meiri hlutans. Hún gengur út á að jafna þessu á landsmenn eins og hægt er en verum samt minnug þess að hér á þessum stað býr fjöldinn. Það er sama hvaða greiningar eru settar upp, alls staðar kemur upp mikilvægi þess að fara í þær höfuðleiðir sem hér eru undir og gera þær vel og betur en við sjáum fyrir okkur að geta gert með öðrum hætti. Það verður ávinningurinn af þessu fyrir okkur öll, alveg sama hvar á landinu við búum. Það verða síðan ruðningsáhrif af því að við getum farið í enn frekari framkvæmdir, bæði innan höfuðborgarsvæðisins sem annars staðar.

Ég þakka nefndinni fyrir það mikla starf sem unnið hefur verið á vettvangi hennar á undanförnum vikum og mánuðum. Ég gef mér og ber til þess væntingar að við náum að ljúka þessum málum með sómasamlegum hætti.