149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka nefndinni fyrir að ljúka störfum í þessu mikilvæga máli og fyrir að málið sé komið hingað inn í þeim búningi sem það er. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta farið af stað, mikilvægt fyrir Vegagerðina að sjá fyrir þessa fimm ára áætlun og fyrir okkur hin að sjá stefnumótun til 15 ára, sem við greiðum atkvæði um síðar í dag. Hún gefur okkur annars vegar tækifæri til að horfa langt fram í tímann, standa undir þeim stóru orðum að hér séum við að setja meiri fjármuni til samgangna en nokkurn tímann fyrr, þ.e. í fimm ára áætluninni, og væntingar um meira inn í framtíðina. Um leið höfum við tekið umtalsverða umræðu um aðrar leiðir, um flýtiframkvæmdir, almenningssamgöngur og flugsamgöngur.

Ég þakka fyrir þá umræðu sem verið hefur í þingsal, í nefndinni og reyndar úti í samfélaginu, en við þurfum að ganga lengra í þeirri umræðu. Við munum hafa tækifæri til þess þegar málin fara að skýrast, en ég þakka fyrir að við séum komin á þennan stað í dag.