149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Öll erum við hér inni sammála um að stórbæta þarf samgöngur á landinu. Þetta snýr að efnahag landsins, samfélagi og umhverfi.

Þessir mikilvægu innviðir hafa verið látnir grotna niður á vakt hægri stjórnar í fordæmalausum uppgangi og ekki á að gera nóg enn. Þó að gjaldtaka í einhverri mynd og breyting á henni þurfi að komast á dagskrá eru þær tillögur sem hér eru óútfærðar og flumbrugangurinn óásættanlegur. Við getum vel fjármagnað úr ríkissjóði þessar nauðsynlegu framkvæmdir og það þarf að leggjast yfir það hvort fyrirhugaðar gjaldtökur leggist þyngra á efnaminna fólk í landinu, sem mér sýnist þær gera með þessari tillögu.