149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það verða auðvitað mikil tímamót ef fram fer sem horfir samkvæmt þeim tillögum sem meiri hluti þingsins er nú vonandi að fara að afgreiða. Það mun hafa stórkostleg áhrif á næstu árum í uppbyggingu samgöngukerfisins þjóðinni til heilla. Þetta eru í senn umhverfismál, samgöngumál og stórt hagsmunamál í öllu tilliti.

Margir reyna að þyrla upp ryki hér um frágang málsins. Talað er um að tillögurnar séu óútfærðar. Já, það er af því að útfærslan á eftir að koma í lagafrumvarpi, virðulegi forseti.

Talað er um að gjaldið muni leggjast þyngra á efnaminna fólk en aðra. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að þeir sem þannig tala hafa ekki rætt við mig eða aðra um að hafa t.d. sérstakt gjald fyrir eldri borgara og öryrkja, sérstakt afsláttargjald til þess að hjálpa þeim sem eru efnaminni og minna mega sín. Það hefur aftur á móti til að mynda hv. þm. Karl Gauti Hjaltason gert og höfum við sameinast um að við munum leggja það til. (Forseti hringir.)

Talað hefur verið um skatta á höfuðborgarsvæðið. Það er auðvitað alrangt. Í nefndarálitinu kemur fram að við ætlum að gæta jöfnuðar allra landsmanna í þessari gjaldtöku. Þetta er landsátak, virðulegur forseti.