149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um fullfjármagnaða en afskaplega vanbúna samgönguáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Tillögur stjórnarmeirihluta, með stuðningi Miðflokksins, miða því miður ekki að því að tryggja öryggi vegfarenda heldur einmitt fresta þeim nauðsynlegu aðgerðum á meðan stjórnarflokkarnir koma sér saman um umtalsverða skatta og gjaldaálögur á allan almenning í landinu.

Þá skilar ríkisstjórnin einnig auðu þegar kemur að stórátaki í loftslagsmálum með nauðsynlegri uppbyggingu á almenningssamgöngum um land allt, bæði í þéttbýli og í dreifbýli.

Jafnaðarmenn, þar á meðal við í Samfylkingunni, aðhyllast þá stefnu að þeir borgi sem geti. En nú ætlar ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur að innleiða stefnu hægri manna, að þeir borgi sem noti, algjörlega óháð efnahag.

Þingheimi gefst kostur á að greiða atkvæði með breytingartillögum minni hlutans og hvet ég þingheim til að skoða þær gaumgæfilega.