149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. 70 milljarða kr. viðhaldsþörf, jafnvel nokkurra hundraða milljóna króna nýbyggingaþörf — þessi samgönguáætlun kemst ekki nálægt því sem þarf að gerast. Hún er alveg hriplek, í henni eru stór göt og þau augljósustu eru í kringum höfuðborgarsvæðið. Allir þeir sérfræðingar sem komu fyrir nefndina bentu þar á hættulegustu staðina sem gefa okkur langmestan ábata til baka ef við förum þar í framkvæmdir.

Einhverra hluta vegna eru þær framkvæmdir settar undir veggjaldaáætlun. Það er stórfurðulegt.

Það er líka stórfurðulegt að hérna er sagt að aldrei hafi verið meiri peningar settir í samgönguáætlun. Þá gleymist náttúrlega, eins og venjulega, að taka tillit til verðbólgu. Hlutfallslega séð er ekki einu sinni meðaltal af fjármagni sett í samgönguáætlun.

Fyrir kosningar sögðu líka allir flokkar: Engin veggjöld. Einhverra hluta vegna koma þau samt hingað í dag. Það er stórmerkilegt.