149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í umræðu undanfarinna daga um samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar hefur því verið harðlega mótmælt að íbúum höfuðborgarsvæðisins og suðvesturhornsins skuli stillt upp við vegg á þann hátt að nær allar brýnar framkvæmdir sem varða öryggi, umferðarþunga og umhverfismál séu háðar því skilyrði að á þessu svæði kyngi menn því að greiða veggjöld langt umfram það sem gengið er út frá að verði annars staðar á landsbyggðinni.

Í umræðunni hefur síðan komið fram að tillögur meiri hlutans um veggjöld séu óútfærðar sem og að þess verði gætt að jafnræði verði meðal landsmanna. Ég túlka þau orð sem svo að því megi treysta að við munum sjá gjörbreyttar hugmyndir þegar frumvarp samgönguráðherra um fjármögnun í samgöngumálum kemur fram og þegar ný samgönguáætlun verður tekin upp næsta haust.

Ég fagna því en spyr jafnframt: Til hvers var farið í þessa vegferð sundurlyndis og óeiningar ef hlutirnir voru á annað borð óútkljáðir?