149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Við erum ekki að greiða atkvæði um nein veggjöld þrátt fyrir alls konar atkvæðaskýringar í dag. 800 milljónirnar, sem eru 300 og 500 á næstu tveimur árum, eru algjörlega í samræmi og takti við óskir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, samkomulag sem þar var gert og við stöndum fullkomlega við eins og aðrar framkvæmdir, og þá getum við farið af stað næstu tvö árin og undirbúið okkur fyrir þá vinnu.

Þeir þingmenn sem lögðu fram þessar breytingartillögur og komu hér upp fyrir hönd Samfylkingarinnar og Viðreisnar, sem sitja í meiri hlutanum í borginni, vita vel að sá meiri hluti og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt til að við förum sömu leið og aðrar borgir og að hér verði sett upp gjaldstýrð umferðarstýring, m.a. til að byggja upp almenningssamgöngur og stofnbrautir. Mér kemur þessi umræða þess vegna mjög á óvart. En það er algjört samkomulag á milli ríkisins og sveitarfélaganna um að ná samkomulagi um nákvæmlega þessa skiptingu. (Forseti hringir.) Þess vegna er flumbrugangur að leggja til einhverja upphæð í samgönguáætlun þegar slíkt samkomulag liggur ekki fyrir.