149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:55]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Þær breytingartillögur minni hlutans sem við erum að greiða hér atkvæði um kalla ég ekkert annað en lýðskrum, bæði fyrri tillögur og þær sem eftir eiga að koma. Hvergi sá ég þær hugmyndir í umræðu þegar við ræddum fjárlögin eða fjármálaáætlunina.

Þegar fjárlagafrumvarpið var rætt lá alltaf fyrir að ekkert pláss yrði fyrir þessar framkvæmdir í þeirri samgönguáætlun sem er verið að samþykkja hér nema með breytingum á fjárlögum. Það lá alveg fyrir, þetta er samgönguáætlun og í henni erum við að ráðstafa fjármunum sem hefur verið úthlutað annaðhvort í fjármálaáætluninni eða í fjárlögum. Það er ekkert annað en lýðskrum og sýndarmennska að koma með þessar tillögur sem þau vita að ganga ekki upp. Þau hafa komið með tillögur við fjárlagafrumvarpið til að fjármagna aðra hluti þannig að þau geta ekki ákveðið sig hvar þau ætla að nota peningana. (Gripið fram í: Sýndarfjárlög.)