149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Hér er einfaldlega tekið undir mikilvægi þess að ráðast í þessar mikilvægu samgöngubætur, að tekið verði af skarið um að við finnum nú þegar leiðir til að fjármagna þær úr ríkissjóði. Hér hefur ítrekað verið rætt um t.d. möguleikana á eignasölu til að fjármagna þessar mikilvægu framkvæmdir og er hægur vandi að losa um eignarhald ríkissjóðs á bönkunum. Það er fordæmalaust mikið eignarhald á fjármálakerfi í samanburði við önnur Vesturlönd.

Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt þetta mál með það að markmiði að hækka skatta á umferð þrátt fyrir allt tal um annað. Það er allt lýðskrumið í því máli sem vísað er hér til. Hann þorir ekki að taka slaginn við samstarfsflokka sína í ríkisstjórn um sölu ríkisbankanna. Það er miklu auðveldara fyrir Sjálfstæðisflokkinn að taka slaginn og hækka skatta en að taka slag um það að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum og nota það fjármagn til að fjárfesta í innviðum. Það er dálítið sérkennilegt að kalla það hægri stefnu.