149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:00]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður sem talaði á undan mér og fleiri erum algerlega sammála um að það margborgar sig að fara í samgönguframkvæmdir. Þær eru velferðarmál númer eitt eins og ég hef margoft sagt en þingið hefur aldrei tekið á þessu máli sem slíku, ekki í þau tæpu sex ár sem ég hef verið á Alþingi og reynt að tala fyrir því. Þess vegna bíð ég eftir því að breytingartillagan sem minni hlutinn er með hérna núna komi fram hjá honum við gerð fjárlaga, að forgangsröðunin þar sé að minni hlutinn sé tilbúinn að ráðstafa 14 milljörðum á ári næstu sex árin úr ríkissjóði í samgöngumál. Ég skal taka þátt í þeirri umræðu með honum. (Gripið fram í: Muntu samþykkja það?) Það hefur ekki enn komið hingað inn.

Svo vil ég líka benda á þá leið sem við erum að greiða atkvæði um hér, við fáum gesti okkar til að hjálpa okkur að byggja upp innviðina sem m.a. gestirnir munu njóta góðs af.