149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þeir hafa verið kallaðir popúlistar sem vilja tryggja öryggi vegfarenda. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar að þingið hefur ekki getað tekið á nauðsynlegum breytingum í vegakerfi landsins þau sex ár sem hann hefur setið á þingi og flokkur hans verið í ríkisstjórn. Það er þess vegna sem við erum í þeirri stöðu sem við erum í núna. Hann hefur allan tímann sem hann hefur setið á þingi verið með meiri hluta á þingi. Þau hafa ekki treyst sér til að fjármagna nauðsynlega innviði, eignir landsmanna, tryggja öryggi landsmanna á vegum úti. Þetta er áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Þetta er áfellisdómur yfir Sjálfstæðisflokknum og öllum þeim flokkum sem kjósa að starfa með honum.