149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við greiðum atkvæði um breytingartillögu er gengur út á að leiðrétta ákveðna hluti í fyrra nefndaráliti. Í greinargerð með breytingartillögunni segir:

„Við breytingar á samgönguáætlun er það ekki ætlun meiri hlutans að seinka verklokum framkvæmda né að draga verulega úr framkvæmdahraða.

Því er hér lagt til að fallið verði frá því að lækka fjárframlög til vegarins Skarhólabraut–Hafravatnsvegur um 400 millj. kr. árið 2019 þannig að því verki geti lokið í ár. […] Af því leiðir að ekki þarf að færa 400 millj. kr. af veginum um Kjalarnes í þær framkvæmdir á árinu 2020 og framkvæmdahraði þar mun því ekki raskast. “

Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvæg breytingartillaga og ég vona að þingheimur geti sameinast um að það er nauðsynlegt að fara í mikilvægar samgöngubætur og öryggisbætur á Vesturlandsvegi innan Mosfellsbæjar og svo upp á Kjalarnes.