149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem ýmsir ræðumenn hafa sagt, það er ánægjulegt að þessi breyting, verði hún samþykkt, komi aftur inn, bara til að tryggja að framkvæmdahraði á Kjalarnesi haldi, á þeim mikilvægu vegabótum sem þar eru fyrirhugaðar. Það er smávægileg tilfærsla á fjármunum innan ársins 2019 sem skiptir í sjálfu sér ekki máli, hvorki hvað upphaf né lok framkvæmda varðar, yfir á Grindavíkurveginn eins og við þekkjum úr umræðum hérna. Það er mikilvægt að þessar 400 milljónir komi aftur inn á árið 2020 til að tryggja að framvindan verði með þeim hætti sem upphaflega var lagt upp með hvað þessa mikilvægu framkvæmd varðar.

Ég tek undir það sem kom fram hjá framsögumanni og tillöguflytjanda þessarar breytingartillögu, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, að verði farin útfærsla af veggjaldaleiðinni, flýtigjaldaleiðinni, má ætla að útfærslan á Kjalarnesi verði burðugri en upp hefur verið lagt með hingað til.