149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það var pólitísk ákvörðun Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á árinu 2013 að svelta innviði samfélagsins. Þeir sömu flokkar, nú með stuðningi Vinstri grænna, lækkuðu veiðigjöld á útgerðir sem sannarlega eru í góðum efnum, leggja til að skattar á banka verði lækkaðir og geta alls ekki hugsað sér skatta á ofurtekjur eða á tekjur þeirra sem allra mest hafa handa á milli í þessu landi. Samtals myndi það gera meira en að dekka þessar samgöngubætur.

Svo segja þau við almenning, segja við fólk með lágar og meðaltekjur: Ef þið viljið betri vegi og umferðaröryggi verðið þið bara að borga hærri skatta, borga vegskatta og veggjöld. En öll lofuðu þau fyrir kosningarnar 2017 að þau myndu alls ekki leggja á veggjöld. Núna eru þau að svíkja það hressilega og ég sé ekki betur en að þau séu bara stolt og nokkuð hreykin af því að svíkja kjósendur með þessum hætti.