149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem mig langar að koma inn á í tengslum við þessa breytingartillögu. Annars vegar verðum við að hafa í huga að miðlæg þjónusta er meira og minna öll byggð upp hér á höfuðborgarsvæðinu og það er ekki nema sjálfsagt að styðja við það að íbúar landsbyggðarinnar geti með viðráðanlegum hætti sótt hana hingað án þess að taka til að mynda strætó í níu klukkutíma og 15 mínútur frá Akureyri eða 12–14 klukkustundir frá Egilsstöðum. Það sættir sig auðvitað enginn við að það sé skilgreint sem almenningssamgöngur sem fúnkera til að sækja einhverja þjónustu.

Ég fagna því bara að þessi breyting komi hér inn og vona að útfærslan verði með þeim hætti að til mikillar gæfu verði, bæði fyrir íbúa landsbyggðarinnar og innanlandsflugið sem hefur auðvitað, eins og við þekkjum öll, glímt við mjög erfið rekstrarskilyrði um langa hríð.