149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Sem áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd styð ég tillögur minni hluta sem hafa verið lagðar fram. Almennt séð erum við Píratar hlynntir ábyrgri stjórn fjármála. Þess vegna báðum við í fjármálaáætlunarferlinu alltaf um forgangsröðunarlista til að við gætum tekið upplýsta ákvörðun um það hvaða verkefni myndu detta út eða hvaða verkefni bætast við, t.d. á forgangsröðunarlista Vegagerðarinnar, ef meiri peningi væri bætt við eða ef minni peningur yrði settur í málaflokkinn. Það fengum við aldrei. Þar af leiðandi gátum við ekki tekið upplýstar ákvarðanir um það, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, hvaða verkefni kæmu eða færu ef peningum yrði bætt við. Þetta snýst nefnilega dálítið um að við sjáum eina stóra upphæð í fjárlögum en vitum ekkert hvaða forgangsröðun er þar á bak við. Að sjálfsögðu gerðum við ráð fyrir því að þær samgöngubætur sem fela í sér mest öryggi og vega þyngst væru efst á lista, en þær voru það ekki. Við hefðum viljað raða þessu öðruvísi.