149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

154. mál
[15:42]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni og framsögumanni málsins fyrir þetta mál sem og Samfylkingunni allri. Þetta er ótrúlega flott mál og mikilvægt að við förum að huga að því að lengja fæðingarorlofið því að það er skref í áttina að því að byggja upp fjölskylduvænt samfélag.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Ég tók eftir því þegar ég skoðaði lög um fæðingar- og foreldraorlof að þar er ekkert fjallað um réttindi barnsins til að eyða tíma með foreldrum sínum, heldur snýr það allt að rétti foreldra til að fá orlof. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki orðið dálítið úrelt, sérstaklega ef við skoðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þá áherslu sem við leggjum í auknum mæli á réttindi barna og það hversu mikilvægt er fyrir þroska barnsins að eyða tíma með foreldrum sínum. Sá tími er mjög skertur eins og staðan er núna, einkum þegar kemur að einstæðum foreldrum þar sem barnið fær mögulega aðeins sex mánuði með foreldri sínu í staðinn fyrir níu eins og þau börn sem eiga tvo foreldra.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi hugsað þetta eitthvað eða það komist til tals. Er hv. þingmaður opinn fyrir því að skoða það í þeim tilfellum — ég geri mér grein fyrir því að kynjajafnrétti og sú barátta skiptir máli — þar sem annað foreldrið hefur hreinlega ekki áhuga á eða vilja til að eyða tíma með barninu sínu hvort ekki sé rétt í ljósi réttinda barnsins til að eyða tíma með foreldri sínu að hægt sé að framselja þann tíma að einhverju leyti, þannig eitt foreldri gæti fengið allan tímann með barninu? Ætti að vera til staðar einhvers konar undanþága í lögum fyrir þá aðila?