149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

154. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt umfjöllunarefni í umsögn frá landlækni. Hann telur nauðsynlegt að fæðingarorlofið verði skilgreint sem réttur barns til umönnunar á fyrstu mánuðum lífsins. Ég held að mjög mikilvægt sé að það komi fram. Ég held að líka sé sjálfsagt að skoða hvernig sé hægt að mæta þeim börnum sem búa og munu fyrirsjáanlega búa með einu foreldri. Þá þyrfti hins vegar að leita leiða til að skilgreina það mjög nákvæmlega vegna þess að ekki væri heldur gott þegar tveir foreldrar eru til staðar, sem eiga báðir að sinna barninu og barnið á rétt á að kynnast á fyrstu vikunum og mánuðunum, að hægt væri að leika sér of mikið með það. Þess vegna eru settar ákveðnar reglur um hvernig það er og hefur verið horft m.a. til hinna norrænu ríkjanna, þótt það sé aðeins mismunandi þar.

Jú, ég held svo sannarlega, hv. þingmaður, að það væri þess virði að ræða í nefndinni og ég vona að formaður velferðarnefndar, hv. þingmaður sem hér talar við mig, muni taka það upp. Ég mun auðvitað styðja allar slíkar hugmyndir.