149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

154. mál
[15:50]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Já, ég heyri að við hv. þm. Logi Einarsson erum sammála nánast að öllu leyti um þetta ágæta mál sem hann ber hér á borð fyrir okkur á Alþingi. Svo við höldum áfram að spjalla saman um þetta góða mál þá spyr ég hvort hv. þingmaður væri til í að deila því með okkur hvernig hann sér fyrir sér þetta frumvarp, hvort það geti ekki einmitt verið þessi nauðsynlega aðgerð til að brúa bilið á milli fæðingarorlofsins og leikskóladvalar ungra barna.

Svo velti ég fyrir mér hvort hv. þm. Logi Einarsson vill fara með mér í einhverjar hugrenningar um þessa sameiginlegu mánuði foreldra, hvort það gæti hugsanlega í einhverri útfærslu verið þannig, og það gæti verið eitthvað sem nefndin gæti tekið fyrir í sinni umfjöllun, að ef annað foreldrið vill ekki þessa sameiginlegu mánuði væri eitthvert ákvæði um að það gæti fallið í skaut hinu foreldrinu einmitt til þess að tryggja réttindi barnsins.