149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

154. mál
[15:54]
Horfa

Einar Kárason (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að það er mikill heiður að fá að standa í þessari ræðustúku. Mér kom í hug undir umræðunum að fyrir tæpum hálfum mánuði var ég staddur úti í Indlandi og sat þar á palli ásamt fleiri norrænum höfundum og þarlendum spyrjendum var mjög ofarlega í huga að fá að vita hvernig stæði á því að meira jafnrétti væri meðal kynja á Norðurlöndum en í þeirra heimshluta. Við vorum m.a. spurð sem vorum þarna uppi hver væru þrjú stærstu framfaraskrefin sem orðið hefðu í þeim efnum um okkar ævidaga. Ég gat bara svarað fyrir okkur Íslendinga. Ég sagði að það hefði verið í fyrsta lagi 1980 þegar við kusum konu sem forseta, og ekki bara konu heldur líka einstæða móður. Ég rifjaði upp að í umræðum frambjóðenda fyrir kosningarnar hefði helsti keppinautur hennar sagt, og þótti engum skrýtið þá: „Ég tel að forseti Íslands þurfi að hafa góða eiginkonu sér við hlið.“ Þetta hljómar sem betur fer eins og brandari í dag.

Ég sagði að það næsta sem mér kæmi í hug hefði verið 14 árum seinna þegar R-listinn náði meiri hluta í Reykjavík undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þá var R-listinn m.a. með það baráttumál að tryggt yrði að öll börn fengju dagvistun allan daginn. Ég rifjaði líka upp, þótt það hafi kannski verið óþarfi, að helsti andstöðuflokkurinn í þeim kosningum hefði þá lagt til að húsmæðrum yrðu greidd laun fyrir að vera heima og passa börnin sín.

Ég sagði að það þriðja væri þegar komið hefði verið á fæðingarorlofi og ekki síst fæðingarorlofi fyrir bæði kynin. Ég bætti því við að mér hefði þótt sú hugmynd algerlega fáránleg þegar ég heyrði hana fyrst, að það ætti að fara að borga karlmönnum fyrir að hvíla sig eftir barnsburð, en maður áttaði sig svo á því að sú aðgerð gjörbreytti stöðu kynjanna á vinnumarkaði vegna þess að fram að því höfðu sérstaklega ungar konur þótt að því leyti mjög ótryggur vinnukraftur að þær væru líklegar til að fara í fæðingarorlof.

Sem faðir fjögurra dætra er ég ákaflega glaður yfir því að hafa lifað öll þau framfaraskref. Þess vegna tel ég þetta vera afar gott mál sem ég stóla á að þið hin sem ráðið hér mestu komið heilu í höfn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)