149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðun lögræðislaga. Þetta mál stendur mér nærri og er mér kært og það er mér mikil ánægja að fá að mæla fyrir því í dag. Ég hef verið með það í farvatninu í talsvert langan tíma, alla vega frá því að ég settist hér á þing. Mín fyrsta ræða á Alþingi sneri að endurskoðun lögræðislaga, mikilvægi þess að við færum ofan í kjölinn á þessum lögum og uppfærðum þau til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands gagnvart fötluðu fólki en almennt líka þeim sem þurfa að sæta þeirri meðferð sem lögin segja fyrir um.

Tillagan felur í sér að Alþingi skipi nefnd átta þingmanna úr öllum flokkum, þ.e. einn þingmann úr hverjum flokki, til þess að ráðast í heildarendurskoðun á lögræðislögum. Þessi nefnd á líka að setja það í forgang að afnema öll ákvæði lögræðislaga sem mismuna fötluðu fólki með beinum hætti í lögum. Með nákvæmlega þeim ákvæðum á ég við ákvæði eins og 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, sem setur það sem eina skilyrði frelsissviptingar að viðkomandi aðili þjáist af geðsjúkdómi, líkur séu á að svo sé, ástandi hans sé þannig háttað að því megi jafna við alvarlegan geðsjúkdóm eða að hann þjáist af vanda gagnvart áfengis- eða fíkniefnamisnotkun.

Að alvarlegur geðsjúkdómur einn og sér eða grunur þar um teljist nægjanlegt skilyrði til jafn alvarlegs inngrips í frelsi og réttindi einstaklinga og nauðungarvistun sannarlega er er bein lagaleg mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma eða ætlaða geðsjúkdóma. Þetta er eitthvað sem Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu hefur bent á frá sinni fyrstu heimsókn til Íslands árið 1994 án þess að teljandi viðbrögð hafi verið að sjá eða finna hjá stjórnvöldum á Íslandi, sem er að sjálfsögðu miður.

Í tillögunni er lagt til að við breytum þessu fyrirkomulagi og snúum af þeirri braut sem mér finnst lögræðislögin vera á, þ.e. þau vanvirða og mismuna fólki á grundvelli þess að það er ekki talið vita hvað því er fyrir bestu. Þetta er viðvarandi viðhorf margra gagnvart fólki með geðsjúkdóma, gagnvart fólki með geðfötlun, að það hafi ekki vit á því sem því er fyrir bestu og geti ekki vitað hvers konar lyfjameðferð það eigi að fá og eigi ekki endilega að fá að ganga laust ef læknir telur það ekki vera því fyrir bestu.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að við höfum einhvers konar neyðarúrræði í okkar lögum eins og við sjáum í mörgum löndum í kringum okkur, í flestum lýðræðisríkjum. Þau hafa vissulega neyðarúrræði til nauðungarvistunar í sínum lögum en þar er skýrt afmarkað og þar er mjög skýrt að um neyðarúrræði er að ræða sem einungis er gripið til ef lífi viðkomandi eða heilsu stafar veruleg ógn af, nú eða annarra. Þessu eru ekki fyrir að fara í lögum okkar um nauðungarvistun. Þar eru engin skilyrði sett um að viðkomandi aðila stafi ógn af því, eða lífi hans eða heilsu, verði hann ekki nauðungarvistaður. Þar er heldur ekki að finna skilyrði fyrir því að a.m.k. tveir sérfræðingar í geðheilbrigði verði að komast að sömu niðurstöðu um nauðsyn nauðungarvistunar, sérstaklega þegar kemur að áframhaldandi nauðungarvistun. Ef við horfum á nauðungarvistun sem tveggja stiga prósess er fyrst um að ræða nauðungarvistun sem getur varað í allt að 72 tíma, þ.e. þrjá sólarhringa, eða nauðungarvistun sem svo er samþykkt af sýslumanni og getur varað í allt að 21 dag í viðbót.

Ég myndi telja, a.m.k. þegar kemur að þessu seinna stigi, þegar verið er að tala um að frelsissvipta einstakling í þrjár vikur inni á geðsjúkrahúsi, þurfi að liggja fyrir að tveir læknar, sem eru sérfræðingar í geðheilbrigði, þurfi að komast að sameiginlegri niðurstöðu um að það sé eina úrræðið, að önnur úrræði sem eru vægari og minna inngrip hafi verið reynd eða séu algerlega ómöguleg og að nauðungarvistunin sjálf muni vissulega skila einhverjum ábata til viðkomandi. Þetta þætti mér vera lágmarkskrafa en svo er því miður ekki í lögræðislögunum eins og þau standa nú.

Alvarlegar athugasemdir hafa sömuleiðis verið gerðar við þau ákvæði lögræðislaganna sem snúa að þvingaðri meðferð þeirra sem hafa verið nauðungarvistaðir á spítala á Íslandi. Eins og lögin okkar eru nú er nóg að vakthafandi sjúkrahúslæknir ákveði að beita þvingaðri lyfjameðferð en lögin setja ekki skilyrði um að það sé nauðsynlegt til verndar lífi og heilsu viðkomandi eða annarra. Um leið og sýslumaður er búinn að samþykkja nauðungarvistunina í þennan 21 aukalega dag þarf það ekki að vera nauðvörn læknis að sprauta fólk niður, t.d. með forðasprautu eða með sljóvgandi efnum.

Vandamálið við að hafa lögin eins og þau eru, þannig að ekki séu sett nein nákvæm skilyrði um að þetta þurfi að vera síðasta úrræðið, um að hætta steðji annars að lífi fólks eða heilsu, er það að réttarstaða fólks sem telur sig hafa verið misrétti beitt í þessu ferli er afskaplega veik ef það ætlar að leita réttar síns fyrir dómstólum. Þar sem lögin segja einungis til um að það þurfi ákvörðun frá lækni, ákvörðun frá sýslumanni, en ekki er talað um skilyrðin, að það megi ekki vera nema síðasta úrræði, að það verði þá að vera í nauðvörn, er réttarstaða viðkomandi afskaplega veik ef hann ætlar að halda því fram að hann hafi verið frelsissviptur að óþörfu eða beittur þvingandi meðferð að óþörfu. Það setur fólk sem verður fyrir þessu kerfi á annan og lægri stall en þá sem búa ekki við það að hafa einhvern tímann verið greindir með geðsjúkdóm eða að læknir hafi einhvern tímann talið líkur á að viðkomandi sé með geðsjúkdóm.

Í löndunum í kringum okkur er þetta vissulega til sem neyðarúrræði en þar eru þau grundvallarskilyrði í lögunum að þetta verði að vera neyðarúrræði, að sérfræðingar verði að vera sammála um sjúkdómsgreiningu sem liggi fyrir. Það er ekki nóg að líkur séu á að einhver hafi alvarlegan geðsjúkdóm til að leggja hann inn á stofnun gegn vilja sínum.

Þetta þarf að skoða alvarlega og þetta er það sem snýr að nauðungarvistunarhluta lögræðislaga. En vissulega er það alls ekki það eina sem upp á vantar til að lögræðislögin standist þær kröfur sem við höfum gengist undir og skuldbundið okkur til að uppfylla, til þess að vernda mannréttindi allra, óháð fötlun, óháð stöðu og óháð því hvort þeir hafi meintan eða alvarlegan geðsjúkdóm.

Í þessum lögum höfum við líka lögræðissviptingar, sjálfræðissviptingar og fjárræðissviptingar. Eins og þessi mekanismi er settur upp — þar sem lögráðamenn eru skipaðir þeim sem taldir eru ófærir um að taka sjálfstæðar ákvarðanir í sínu lífi — er um að ræða svokallaða staðgengilsákvörðunartöku. Ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að ákveðinn einstaklingur geti ekki vegna ákveðinna aðstæðna tekið skynsamlegar ákvarðanir í lífi sínu er honum skipaður lögráðamaður til að taka slíkar ákvarðanir í hans stað. Það er í þessu sem staðgengilsákvörðunarkerfi er falið. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks markaði þáttaskil í því hvernig við nálgumst fólk með þess konar fötlun að það eigi í erfiðleikum með að taka ákvarðanir í lífi sínu. Við viljum snúa af þeirri braut að hafa staðgengilsákvörðunarkerfi og fara inn á þá braut að bjóða upp á stuðning við ákvörðunartöku fyrir þá sem þurfa á honum að halda.

Vissulega hafa verið stigin skref í átt að því að styðja fólk betur til ákvörðunartöku með persónulegum talsmönnum fatlaðs fólks. Hins vegar eru persónulegir talsmenn eða kerfi persónulegra talsmanna eins og það er sett upp í lögum í dag ekki þess eðlis að það uppfylli þau skilyrði sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks setur um slíka talsmenn, m.a. að ekki megi mismuna aðgengi fólks að persónulegum talsmönnum á grundvelli efnahags. Ef fólk á t.d. fáa að eða býr við bágan efnahag getur það ekki fengið sér persónulegan talsmann og því er meiri hætta á að það verða svipt lögræði og því skipaður lögráðamaður, frekar en að það fái stuðning við ákvörðunartöku eins og samningurinn gerir ráð fyrir að við bjóðum fólki upp á.

Ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt að við bjóðum upp á stuðning við ákvörðunartöku, frekar en staðgengilsákvörðunartöku, eru þær hvatir sem við höfum flest, held ég, að finnast við oft vita hvað öðrum er fyrir bestu. Læknastéttin, eins klár og vel menntuð og hún er, á þetta líka til, að finnast hún vita hvað öðrum er fyrir bestu. Með lögræðislögunum eins og þau standa í dag, bæði gagnvart nauðungarvistuðum sem eru beittir þvingandi meðferð og gagnvart lögræðissviptum sem hafa lögráðamenn, sem oft eru lögmenn eða þá nánir aðstandendur, erum við að bjóða upp á að einstaklingar fari í gríðarlega sterka valdastöðu gagnvart öðrum einstaklingi sem er sviptur sjálfsákvörðunarréttinum og við veitum þeim einstaklingum leyfi til þess að taka ákvarðanir um hvað viðkomandi aðila er fyrir bestu.

Það er þetta sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ætlar sér að snúa við, að ekki þurfi að hafa vit fyrir fötluðu fólki, að ekki megi taka ákvarðanir út frá því hvað öðru fólki finnst vera því fyrir bestu heldur miklu frekar að það eigi að gera sitt allra besta til að virða vilja einstaklingsins sjálfs. Fatlað fólk, fólk með geðsjúkdóma, fólk hvers ástandi er þannig háttað að líkja megi við alvarlegan geðsjúkdóm, á líka rétt á að taka sjálfstæðar ákvarðanir í lífi sínu. Það má líka taka vondar ákvarðanir, án þess að það sé svipt sjálfsákvörðunarréttinum eða frelsinu til að lifa lífinu eins og það vill.

Þetta er spurning um mörkin sem við viljum setja þarna á milli. Ef það er virkilega svo að ef viðkomandi einstaklingur tekur vondar ákvarðanir getum við réttlætt frelsissviptingu hans, að svipta hann sjálfsákvörðunarréttinum ef hann hefur ekki skaðað sjálfan sig eða aðra, ef hann hefur ekki framið neinn glæp? Erum við þá ekki einfaldlega að refsa viðkomandi fyrir að glíma við fötlun, fyrir að taka aðeins öðruvísi ákvarðanir en okkur finnst vera honum fyrir bestu? Það er hættan sem felst í lögræðislögunum eins og þau eru í dag, að forræðishyggjan fái að ganga laus — og hún er rík í okkur mörgum — sérstaklega þegar viðkomandi einstaklingar eru orðnir skjólstæðingar okkar samkvæmt lögum, samkvæmt eðli máls. Í stað þess að virða vilja viðkomandi einstaklings, í stað þess að virða það að viðkomandi einstaklingur neitar að láta deyfa sig eða sprauta sig niður inni á geðsjúkrahúsi er læknum og lögfræðingum gefið leyfi til að gera það sem þeim þykir viðkomandi aðila fyrir bestu.

Ég hlýt að segja af minni dýpstu sannfæringu: Ef við tryggjum ekki að það sé einungis ýtrasta neyðarúrræði að beita fólk þvingunum, að neyða það til að gera hluti sem það vill ekki gera, að læsa það inni, loka það af án þess að við höfum fyrir því réttmætar og lögmætar ástæður, get ég ekki talið það réttlætanlegt. Mér finnst það vera mismunun. Mér finnst það vera forræðishyggja. Mér finnst það vanvirða rétt stórs hóps fólks í samfélaginu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í lífi sínu og ráða sínum högum og stjórna sinni heilbrigðisþjónustu sjálft. Ég lít á það sem sjálfsagðan hlut að ég geti sagt nei við þeim lyfjum sem læknir leggur til að ég taki við einum sjúkdómi eða öðrum, að ég geti valið hvar ég kýs að búa og verði ekki fangelsuð nema ég brjóti af mér á þann hátt að það teljist nauðsynlegt til verndar almannahagsmunum.

Lögræðislögin eins og þau standa í dag vernda ekki þann hóp fólks sem talinn er kljást við alvarlegan geðsjúkdóm eða ekki geta tekið sjálfstæðar eða réttar ákvarðanir í lífi sínu. Það er grundvöllurinn fyrir því að ég legg þessa þingsályktunartillögu fram því að ég vil að þingið allt komi með í þann leiðangur að tryggja að allir hafi rétt til frelsis, að allir hafi rétt til þess að velja sér heilbrigðisþjónustu og enginn verði sviptur þeim réttindum nema til verndar lífi og heilsu annarra.