149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[16:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara koma hingað upp til að fagna þessu máli enda er ég meðflutningsmaður á því og finnst þetta löngu tímabær endurskoðun á lögunum. Núverandi fyrirkomulag, eins og kom ágætlega fram í máli hv. þingmanns og flutningsmanns, endurspeglar dálítið fordóma okkar í garð geðsjúkdóma, fötlunar. Eigum við ekki að segja að andi fortíðar svífi svolítið sterkt yfir vötnum í núverandi lagaumgjörð? Það er löngu tímabært að taka þessa endurskoðun fyrir hér á þingi.

Mér fannst áhugaverð lína hjá hv. þingmanni um áherslu á frelsi fólks til að ráða ráðum sínum sjálft eins og frekast er kostur og að njóta þá frekar stuðnings til ákvörðunartöku í stað forræðishyggju. Það er einmitt þetta frelsi til að taka vondar ákvarðanir. Öll tökum við stundum vondar ákvarðanir og auðvitað á ekki að svipta okkur þeim rétti þó að við glímum við fötlun af einhverju tagi, t.d. vegna geðsjúkdóma.

En mér þætti áhugavert að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því hvernig þetta passar síðan inn í mál sem hér er verið að ræða, í beinu framhaldi væntanlega, um breytingu á lögum um fyrirframgefið samþykki. Þar er verið að reyna að styrkja lagagrunninn til þess að fólk geti mótað það fyrir fram með hvaða hætti það vilji láta taka á sínum málum, t.d. ef það lendir í alvarlegum geðsjúkdómum.