149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get sagt að það mál rímar mjög vel við þetta og ég held að það sé frábært að við tökum þetta samhliða. Næsta mál á dagskrá er þetta fyrirframgefna samþykki eða fyrirframtekin ákvörðun. Það er stundum kallað í þessu máli „advanced planning“, með leyfi forseta, og gengur út á það að einstaklingar geti valið fyrir fram hvernig þeir vilja að sinni læknismeðferð og sinni meðferð almennt sé háttað lendi þeir t.d. í geðrofi eða sambærilegu ástandi. Mér finnst mjög mikilvægt að besti vilji eða líklegasti vilji einstaklingsins sé virtur eftir fremsta megni á öllum stigum málsins. Þetta er aðferð og meðferð sem sérstök nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur mælt með að sé notuð.

Ég hef líka heyrt notendasamtök mæli með þessu. Ég styð líka það góða mál og er einnig meðflutningsmaður á því. Ég styð það að sjálfsögðu heils hugar og tel að það rími mjög vel við þær áherslur sem lagðar eru í þessari þingsályktunartillögu á það að virða sjálfsákvörðunarrétt fólks og forða okkur frá því að forræðishyggjan fái áfram að ráða för í málefnum geðsjúkra og geðfatlaðra.