149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[16:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og hv. þingmaður kom að í svari sínu er tekið fram í tillögunni að hafa skuli samráð við hreyfingu fatlaðs fólks og það var m.a. þess vegna sem ég taldi það ekki upp í máli mínu, ég tel það bara gefið og auðvitað á að gera það þannig að ekkert fari á milli mála. Að sjálfsögðu tel ég, og er fullkomlega sammála því, að í öllum málum sem snerta fatlað fólk eigi að hafa samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. En ég tel að hljóti sú leið brautargengi að þingmannanefnd verði falið þetta sé nauðsynlegt að kalla til sérfræðiþekkingu að auki, aðra en sérfræðiþekkingu fólksins sjálfs sem lögin munu hugsanlega ná til.

Hv. þingmaður vísaði í framsögu sinni í löndin í kringum okkur og þar sem ég veit að hv. þingmaður er vel að sér í þeim efnum langar mig að spyrja til hvaða landa er verið að vísa. Eru Norðurlöndin þar með talin? Það skiptir alltaf máli hvert við leitum okkur fyrirmynda um það sem vel er gert og líka að við vitum hvað við eigum ekki að eyða tíma okkar í að skoða varðandi hvernig mál eru framkvæmd.