149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka aftur fyrir andsvarið. Þessari spurningu er auðsvarað og fljótsvarað. Ég hef skoðað sérstaklega tvö lönd af Norðurlöndunum og það eru Danmörk og Noregur. Í Noregi eru mjög ítarlegar skyldur og kröfur þegar kemur að t.d. nauðungarvistunum. Í Danmörku eru talsvert ítarlegri kröfur en hér, líka gagnvart þvingaðri meðferð. Það er svolítið síðan ég var að rannsaka þetta þannig að ég get ekki talið upp skilyrðin en Svíþjóð hefur ávallt verið nefnt sem mikið fyrirmyndarríki í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hvort það eigi nákvæmlega við um þennan þátt, réttindi fatlaðs fólks, réttinn til lögformlegs hæfis, réttinn til gerhæfis og rétthæfis, get ég ekki sagt til um núna en Svíþjóð hefur vissulega verið talið fyrirmyndarríki í því líka. Ég hef einnig skoðað Skotland og þar eru þau mál mjög vel stödd. Kanada er líka gott dæmi um hvernig má standa vel að slíku. Þar fyrir utan höfum við fjölda fyrirmynda en við getum því miður ekki talist þar á meðal eins og staðan er nú.