149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

málefni aldraðra.

[15:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Vannæring, einmanaleiki allan sólarhringinn, einangrun, enginn til að ræða við, depurð, kvarta ekki, enginn að hugsa um þau, ótryggt fæðuöryggi, fæðuframboð lítið, slæmt næringarástand, vilja ekki láta hafa fyrir sér. Vannæring leiðir af sér pirring, óróa, minnisleysi, þunglyndi, kvíða og minnkaða hreyfifærni.

Þetta á við um aldraða sem hafa minna en 200.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði, eru á aldrinum 77–93 ára og útskrifast af öldrunardeild Landspítalans. Þeim einstaklingum leið enn verr á sálinni, ef það er hægt, sem voru sjálfir í vöðvaniðurbroti af því að þeir borðuðu ekki nóg og þurftu líka að sjá um veika maka.

Þetta segir Berglind Soffía Blöndal í viðtali frá 3. janúar sl. um rannsókn sína á útskrift af öldrunardeild Landspítalans. Rót vandans er alvarlegur skortur á hjúkrunarrými og alls staðar er þrýstingur frá spítölum um að útskrifa fólk sem fyrst.

Ég vil spyrja ráðherra: Er verið að gera eitthvað í þessu máli? Ef svo er, hvað er verið að gera? Væri þetta ásættanlegt þótt ekki væri nema einn í þessu ástandi? Því að einn er einum of mikið.

Ég vil bara fá að vita hvað er í gangi í þessum málum vegna þess að lýsing á því hvernig þessu fólki líður er ömurleg. Það er okkur til háborinnar skammar á Íslandi að hér skuli vera eldri borgarar, á aldrinum 77–93 ára, í slíkri aðstöðu. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum er hægt að hafa þessa öldruðu einstaklinga í slíku ástandi?