149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

fjarlækningar.

[16:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um fjarlækningar og ég tel að þær séu bara hið besta mál, ekki bara úti á landi heldur líka hér á höfuðborgarsvæðinu. Maður pantar tíma hjá heimilislækni og fær kannski tíma eftir mánuð en maður getur leyst málin einn, tveir og þrír með því að fara inn á heilsuvera.is, þá er maður kominn í sambandi við lækni. Maður er líka kominn í samband til að endurnýja lyf og annað. Þetta er bara hið besta mál og mjög þægilegt.

Við eigum líka að horfa til nágranna okkar, t.d. Grænlendinga. Þeir standa framarlega í svona lækningum og þeir eru komnir langt vegna þess að þar eru fjarlægðir miklar og samgöngur stopular. Þeir hafa leyst sín mál mjög vel. Við eigum ekki að vera hrædd við tæknina. Þetta er framtíðin og við eigum að sjá til þess að allir geti komist að. Þótt við séum að tala um rafræn skilríki í dag þá hlýtur að vera framtíðin að það þurfi ekki nein sérstök rafræn skilríki. Það getur verið nóg að nota augnskanna eða fingrafar til að komast inn á svona síður. Það eiga allir að geta haft aðgang að þessu, tæknin er rétt handan við hornið og við eigum bara að sjá til þess að allir geti notað þetta. Þetta getur varðað svo marga eins og sjómenn, fólk með sykursýki og fleiri. Við eigum ekki að vera hrædd við þetta, við eigum að skoða þessa tækni og við eigum að vera helst með fremstu þjóðum og sjá til þess að allir geti haft aðgang að þessari þjónustu og þá erum við í fínum málum.