149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

fjarlækningar.

[16:31]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem er mjög þörf. Fjarlækningar verða æ mikilvægari þáttur í heilbrigðismálum um allt land. Með þeim má jafna aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni og ekki bara hér á landi heldur getur þetta átt við aðgengi að sérfræðiþekkingu erlendis. Samskipti eru upphaf og endir á góðri þjónustu og leiðarstef í heilbrigðisþjónustu til að snerta sem flesta. Notkun stafrænna lausna í heilbrigðisþjónustunni fer vaxandi og mun halda áfram á komandi árum. Þetta skiptir máli bæði fyrir þjónustuveitendur og notendur. Þetta gæti átt við heilbrigðisstarfsmenn á hjúkrunarheimilum úti á landi þar sem eru mjög veikir sjúklingar sem eiga erfitt með að ferðast hingað til höfuðborgarinnar til að leita sérfræðinga, en bæði læknar og hjúkrunarfræðingar gætu nýtt fjarlækningar í sínum störfum til samtals við stærri hóp fagaðila, enda virkar þetta eins og aðrar leiðslur, þær virka í báðar áttir.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt tíu öðrum þingmönnum um velferðartækni þar sem heilbrigðisráðherra er hvattur til að skipa starfshóp sem meti með hvaða hætti velferðartækni geti nýst í þjónustu við eldra fólk og fatlaða, þar með talið að skoða hvernig fjarþjónusta geti nýst hér á landi með hliðsjón af reynslu annarra Norðurlanda.

Velferðartækni nær yfir fjölmargar tæknitengdar lausnir í þágu notenda sem eru til þess fallnar að viðhalda og auka færni og samfélagsþátttöku og lífsgæði. Þarna kemur inn réttur til sjálfstæðrar búsetu. Það er fólki mikilvægt að búa sem lengst heima óháð aldri og þverrandi heilsu. Þar getur velferðartækni nýst og skapað aðstæður til að búa lengur heima og er það mikilvægt heilbrigðis- og lýðheilsumál.

Virðulegi forseti. Með því að nýta okkur tæknina þá náum við til breiðari hóps um land allt og einnig gæti þetta náð til sjómanna á hafi úti. Þannig væri hægt að ná að greina fyrr bráðaveikindi og afleiðingar slysa á skipum og bregðast svo við því með viðeigandi hætti úr landi.