149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

réttindi barna erlendra námsmanna.

438. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Þór Ólafsson) (P):

Frú forseti. Þetta er áframhaldandi fyrirspurn. Ég var með fyrirspurn til þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra — nú er hann orðinn félags- og barnamálaráðherra — Ásmundar Einars Daðasonar einhvern tímann fyrir jól, minnir mig. Nú langar mig að spyrja dómsmálaráðherra því að í fyrirspurn minni til félagsmálaráðherra vísaði hann til þess að hans málefnasvið væri barnavernd en hann hafði ekki að gera með útlendingamál í þessu tilfelli eða dvalarleyfisþáttinn, hann vísaði til dómsmálaráðherra.

Ég beini því spurningum mínum til dómsmálaráðherra. Ástæðan fyrir því að ég er að fara af stað með þetta og er að spyrja að þessu er sú að ég er einn af talsmönnum barna. Allir þingflokkar hafa tilnefnt einn í sínum þingflokki til að vera talsmenn barna. Þetta er verkefni Barnaheilla, UNICEF á Íslandi og umboðsmanns barna. Þar lofum við að við setjum í forgang og höfum það að leiðarljósi — leiðarljós er orðið sem er notað — í okkar starfi að tryggja að lögum um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé fylgt eftir. Í fyrirspurn til ráðherra með ósk um munnlegt svar er ég að sinna skyldu minni sem eftirlitsaðili með því hvort þessum lögum sé fylgt.

Í 1. mgr. 3. gr. segir:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Jafnframt segir í 2. mgr. 2. gr.:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.“

Óháð stöðu foreldranna eigum við, samkvæmt lögum, að hugsa um það sem er barninu fyrir bestu.

Ég sá í fréttum, og ég hef talað við lögmann þessara aðila, rúmlega ársgamlan dreng sem heitir Filip Ragnar. Foreldrar hans eru með dvalarleyfi á Íslandi sem námsmenn en hann fær ekki dvalarleyfi. Það er ákvæði í útlendingalögum, 71. gr. 5. mgr., sem heimilar að veita undanþágu. Það er einhver brotalöm þarna en það má samt veita undanþágu. Þá er sérstaklega talað um, bæði í greininni sjálfri og í greinargerðinni, að það sé gert til að tryggja réttindi barnsins.

Nú var ég að tala um hvaða réttindi barnið hefur samkvæmt lögum, að allar þessar stofnanir hins opinbera geri það sem er barninu fyrir bestu. Og það sem er barninu fyrir bestu, í tilfelli Filips Ragnars og Ernu Reka, sem er ekki með dvalarleyfi hér því að foreldrar hennar eru ekki með dvalarleyfi — þar sem hún er ekki með dvalarleyfi fær hún ekki þau réttindi sem önnur börn á Íslandi hafa — erum við ekki að gæta að jafnræðissjónarmiðinu sem ég nefndi í 2. mgr. 2. gr. laga um réttindi barnsins.

Við ráðherra höfum eitthvað talað um þetta en ég vil fá skýrt upp: Hver er staðan hvað þessi mál varðar? Hvaða vinna er í gangi í ráðuneytinu til að réttindi barnsins og það sem barni er fyrir bestu sé virt?