149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

réttindi barna erlendra námsmanna.

438. mál
[16:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það hefði kannski verið til skýringar og upplýsandi að heyra hvaða réttindi það eru nákvæmlega sem hv. þingmaður telur að umrædd börn séu að missa af í þessum efnum. (Gripið fram í.) — Ýmis félagsleg réttindi, er kallað hér fram úr þingsal.

Það er ágætt að hafa í huga að við hv. þingmaður höfum rætt þessi mál áður hér í salnum, en rétt er að árétta það samt að börn sem fæðast hér á landi fá svokallaða kerfiskennitölu, hljómar auðvitað ekki vel að byrja lífið á kerfiskennitölunni en þannig er það nú samt og þau eru skráð í þjóðskrá. Það er raunveruleikinn og þau börn hafa komist inn á leikskóla og notið ýmissar annarrar þjónustu á meðan foreldrar þeirra njóta dvalarleyfis við nám, svo það sé tekið sérstaklega sem dæmi.

En það kann auðvitað að vera að hv. þingmaður kunni dæmi af einhverju þar sem barnið fær ekki slíka þjónustu og það er auðvitað ekki gott.

En mig langar líka að nefna og rétt að menn hafi það í huga að handhafar dvalarleyfis hér á landi eru sjúkratryggðir, af því að það er kannski helst horft í þau réttindi, þau eru kannski mikilsverðust í þessu sambandi, að þau börn eru sjúkratryggð eftir sex mánaða búsetu. Börn yngri en 18 ára eru sjúkratryggð með foreldrum sínum.

Þetta á við bæði um íslenska ríkisborgara og aðra sem koma hingað eftir dvöl erlendis, að menn fara ekki inn í kerfið fyrr en eftir sex mánuði.

Foreldrar sem eru hér á grundvelli dvalarleyfis, t.d. vegna náms, detta ekki sjálfkrafa inn í sjúkratryggingakerfið hér á landi, en fólki er að sjálfsögðu ávallt frjálst að kaupa sér sjúkratryggingu á meðan dvalið er hér. Það þekkist mjög vel.

Verið er að skoða hvaða réttinda börn sem fæðast íslenskum námsmönnum erlendis, íslensk börn erlendis, njóta í löndunum til samanburðar.

Í dómsmálaráðuneytinu er núna til skoðunar að yfirfara dvalarleyfiskafla útlendingalaga í heild sinni til að sníða af ýmsa vankanta sem hafa komið í ljós við framkvæmd laganna. Við þá vinnu verður jafnframt tekið til skoðunar hvort rétt sé að bæta við nýju ákvæði í lögin sem taki til barna sem fæðast hér á landi á meðan foreldrar þeirra eru með dvalarleyfi sem veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar.

Þetta mál hefur m.a. verið til umræðu á vettvangi þverpólitískrar þingmannanefndar um útlendingamál og þar var rætt að frekar en að bæta við auknum heimildum til fjölskyldusameiningar fyrir námsmenn sérstaklega myndum við skoða það hvort öll börn sem fæðast hér á landi og eiga foreldra með dvalarleyfi ættu að fá sambærilegt dvalarleyfi og foreldrarnir. Slíkt ákvæði myndi ná til stærri hóps en bara barna námsmanna sem fæðast hér á landi og hlýtur að vera mikilvægt, líka í ljósi jafnræðisins sem hv. þingmaður vísaði til.

Áætlað er að vinna við undirbúning frumvarps fari fram á næstu mánuðum og vonast er til að hægt verði að leggja fram frumvarp kannski á næsta þingvetri. Að þessu leyti reynist það eðlilegt.

En ég árétta það líka að mikilvægt er að menn hafi það í huga hvernig þessu er háttað í öðrum löndum. Börn íslenskra námsmanna erlendis, a.m.k. í mörgum löndum sem við sækjum mikið í nám, njóta ekki sérstaks réttar til þess sem kallað er efnahagsleg og félagsleg réttindi í þeim löndum, heldur njóta réttar með foreldrum sínum. Það þarf líka að hafa það í huga að hagsmunir barns eru alltaf fyrst og fremst þeir að vera með fjölskyldu sinni og njóta þeirra réttinda sem fjölskylda hefur.