149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

réttindi barna erlendra námsmanna.

438. mál
[16:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Þór Ólafsson) (P):

Frú forseti. Í rauninni stendur eftir að það er vinna í gangi og ábendingar hafa komist til skila, en samkvæmt lögfræðingi Ernu Rekas, þar sem foreldrarnir eru ekki með dvalarleyfi, hefur hún ekki ákveðin félagsleg réttindi þar sem þau eru bundin við lögheimilisskráningu hennar. Til að mynda hefur hún ekki, með leyfi forseta, „rétt á læknisþjónustu hérlendis, tannlæknaþjónustu, ekki rétt til að ganga í leikskóla í því sveitarfélagi sem hún býr í þar sem skilyrði um inntöku er um skráð lögheimili á Íslandi.“

Það eru greinilegar brotalamir þarna. Ég vil spyrja hvernig dómsmálaráðherra myndi bregðast við ef ég eða aðrir gætum bent á að þarna sé ekki verið að tryggja að barnið hafi jöfn réttindi á við önnur börn samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, en það segir í 2. mgr. 2. gr. hans að það er ekki staða foreldranna sem skiptir máli þegar það kemur að réttindum barnsins. Sama hvernig það er gert, hvernig ráðherra er bent á það, ef það eru þannig brotalamir í kerfinu að núna eru börn á Íslandi sem ekki fá þau réttindi sem þau eiga að hafa samkvæmt lögum — og það kemur alveg skýrt fram frá UNICEF að meðan barn er innan okkar landamæra á það rétt á þeim réttindum sem segir í okkar lögum — ef það er hægt að benda ráðherranum á það, væri þá ekki eðlilegast að ráðherra myndi bregðast sem fyrst við? Ráðherra noti þær heimildir sem hann hefur til að koma tímabundið með einhverjar undanþágur til að tryggja réttindin séu til staðar. Það segir í útlendingalögum að Útlendingastofnun sjálfri er heimilt, með leyfi forseta, „að víkja frá skilyrðum ákvæðis þessa ef sérstaklega stendur á enda krefjist hagsmunir barnsins þess.“ Og svo segir í 6. mgr. sömu greinar:

„Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli þessarar greinar …“

Ráðherra hefur heimildir í lögum til að grípa inn í fyrr áður en fram fer einhver heildarendurskoðun eða endurskoðun á dvalarleyfiskaflanum og bregðast við þannig að börnin njóti réttinda sem fyrst. Er ráðherra tilbúinn að stíga þau skref?