149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

réttindi barna erlendra námsmanna.

438. mál
[16:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað alfa og omega okkar réttarríkis að menn njóti réttar lögum samkvæmt. Það kann að vera að hv. þingmaður hafi mismælt sig þegar hann rakti dæmi um að foreldrar hefðu ekki dvalarleyfi. Ef svo er, þá er auðvitað ekki um það að ræða að barnið njóti annars réttar en foreldrarnir enda nefndi ég það að það er barni fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum. Það þarf líka að huga að því að ef barn fær hér réttindi, t.d. rétt á heilbrigðisþjónustu og öðru, kann það að missa rétt í sínu landi líka. Það er ekki um það að ræða að menn geti hoppað á milli landa til að sækja sér heilbrigðisþjónustu víða.

Mest um vert í þessu er réttur að lögum. Varðandi dæmin sem hv. þingmaður rekur og vill meina að barn njóti ekki réttar sem það hafi lögum samkvæmt þá held ég að það sé misskilningur hjá hv. þingmanni vegna þess að þá er ástæðan sú að börnin njóta einmitt ekki réttar að lögum. Það er einmitt það sem við erum að skoða í dómsmálaráðuneytinu og í hinni þverpólitísku nefnd þingmanna sem hefur til skoðunar útlendingalögin.

Það kann mjög vel að vera að við breytum þessum kafla er varðar réttindi barna, þeirra barna sem fæðast hér en eru börn fólks með tímabundin dvalarleyfi hér á landi. Það er sjálfsagt að gera það en það þarf auðvitað að vera lögum samkvæmt. Við þurfum líka að hyggja að því að menn séu ekki með því að missa kannski mikilsverð réttindi í öðrum löndum, í sínu heimalandi, sem hugsanlega kunna að veita betri þjónustu — þótt við veitum frábæra þjónustu hér, t.d. á heilbrigðissviði — að menn séu ekki missa enn þá betri eða fjölbreyttari þjónustu í sínu heimalandi.

Þetta þarf allt að skoða og ég trúi ekki öðru en að við hv. þingmaður getum verið sammála um a.m.k. markmiðið, að börnin njóti sömu réttinda og foreldrarnir hér. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það.