149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

367. mál
[16:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Rétt er að árétta að þingsályktunartillögur sem samþykktar eru í þessum sal eru auðvitað bara þingsályktanir og í eðli sínu yfirlýsingar Alþingis á hverjum tíma. Ég vil nefna atriði sem mér finnst skipta máli, að frá því að Alþingi ályktaði um valkvæða viðauka hafa tvennar alþingiskosningar verið haldnar, 2016 og 2017. Ég vil einnig nefna að þingleg meðferð slíkra mála er allt önnur en lagafrumvarpa og menn hafa oft verið glannalegir í því sem þeir setja inn í þingsályktanir og fengið samþykkt alls kyns mál af óskalistum ýmissa þingmanna. Ég segi ekki að þingsályktunartillögurnar hafi nánast gengið kaupum og sölum en menn hafa stundum notað þær til að semja um þinglok eða önnur efni. Ég bendi á að þingsályktunartillögur hafa ekki lagagildi.

Varðandi þá þingsályktun sem vísað er til er gott að rifja upp að lögð var fram þingsályktunartillaga um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um fatlaða, einföld tillaga sem þingheimur vildi standa mjög vel að og fékk þinglega meðferð í samræmi við þær meðferðir sem þingsályktunartillögur fá. En á síðustu metrunum, á síðustu klukkustundunum, var tillögunni breytt með þeim hætti að bætt var inn í hana að einnig yrði ályktun þingsins að fullgilda ætti valfrjálsa bókun. Sú breyting fékk enga þinglega meðferð, enga umsögn frá m.a. dómsmálaráðuneytinu eða öðrum, ekkert kostnaðarmat fór fram og þar fram eftir götunum. Ég vil nefna þetta í upphafi.

Þá vil ég segja að síðustu ár hefur hlutur alþjóðasamstarfs aukist ár frá ári á kostnað innlendrar löggjafar og Íslendingar hafa undirgengist mannréttindasáttmála Evrópu sem á mikla skyldleika við mannréttindaákvæði stjórnarskrár. Það hefur einnig umtalsvert afsal fullveldis átt sér stað til að geta tekið þátt í EES-samningnum og í báðum þeim samningum eru ýmis ákvæði sem hafa það að markmiði að tryggja fullveldi. Sem dæmi má nefna að í EES-samningnum er leitast við að tryggja að ákvarðanir séu teknar af stofnunum á okkar vegum fremur en sjálfu Evrópusambandinu.

Það er ágætt að kynna þessa þingsályktun. Fyrir nokkrum árum ályktaði Alþingi að valkvæði viðaukinn skyldi einnig fullgiltur en við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að þessi samningur er ekki bara tilgangslaus heldur segir í þingsályktuninni að hann feli ekki í sér ný réttindi til fatlaðs fólks heldur feli í sér að erlend eftirlitsnefnd hagsmunaaðila muni skera úr um stöðu þeirra sem skjóta máli sínu til nefndarinnar. Þannig felur þingsályktunin í sér að þegar tilteknir einstaklingar hafa tæmt kæruleiðir innan lands án þess að fá það sem þeir vilja fyrir raunverulegum dómstólum þá geti þeir reynt fyrir sér með málskoti til nefndra hagsmunaaðila þar sem litlar líkur eru á að niðurstaðan uppfylli lágmarkskröfur sem gera má til dómsúrlausna. Eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna hafa lagt til að Ísland undirgangist valkvæðu bókanirnar svo að kærunefndir Sameinuðu þjóðanna geti öðlast lögsögu í tilteknum málaflokkum sem hafa fram að þessu verið samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningur Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Það er allur gangur á því hvort hin Norðurlöndin hafi innleitt þær bókanir.

Hv. þingmaður nefndi rök sem mæla með því að innleiða hina valfrjálsu bókun en það eru ýmis rök, og að mínu mati rök sem vega þyngra, sem mæla gegn því að hún sé innleidd, sem á svo sem við um hinar líka. Þau rök eru að álit þessara nefnda eru óbindandi og því óhagstæðari leið fyrir kærendur en niðurstöður t.d. Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er hætta á að kæruleiðirnar skapi óraunhæfar væntingar meðal almennings og hagsmunaaðila sem átta sig jafnvel ekki á því að um óbindandi álit er að ræða.

Ég vil líka nefna að það skiptir verulegu máli að mannréttindi á Íslandi eru þegar tryggð og því bæta þessar bókanir í raun engum réttindum við, eins og kemur stundum fram í ályktunum Alþingis, t.d. í ályktun um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sumar bókanirnar varða matskennd réttindi, jafnvel stefnuyfirlýsingar, þar sem aldrei er hægt að vita fyrir fram hver niðurstaðan verður og eru ekki leiðbeinandi á nokkurn hátt. Ekki eru gerðar miklar hæfiskröfur til nefndarmanna í nefndinni sem kjörnir eru til setu í eftirlitsnefndum víðs vegar að úr heiminum og koma oft úr hópi hagsmunaaðila og því varla um óvilhallar úrskurðarnefndir að ræða. Þetta skiptir mjög miklu máli þegar menn tala um að ætla að fela einhverjum (Forseti hringir.) að fjalla um réttindi eða skyldur bæði borgaranna og ríkjanna sem um ræðir.