149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

viðbragðsgeta almannavarna og lögreglu í dreifðum byggðum.

472. mál
[17:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Markmið almannavarna er, samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um almannavarnir, að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af ýmsum ástæðum, m.a. af völdum náttúruhamfara. — Ég ætla að halda þessu til haga hér rétt í upphafi.

Það er ljóst að ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega. Árið 2011 var áhættuskoðun almannavarna gefin út en þar var lagt mat á áhættu í almannavarna- og lögregluumdæmum landsins. Þar var m.a. horft á fjölgun ferðamanna og ýmsa áhættu sem hún hefði í för með sér á landinu og getu umdæmanna til að taka á móti auknum ferðamannastraumi.

Við þá greiningu kom í ljós að víða á landinu voru umdæmin vanbúin til þess að takast á við breyttar aðstæður. Þess vegna var lagt til að greina þolmörk og stýringu í ferðaþjónustu. Þá var áherslan lögð á ýmsan viðbúnað og viðbrögð eins og fræðslu, upplýsingagjöf, verklagsreglur og áætlanir til að auka öryggi.

Í viðbúnaði og viðbrögðum við náttúruvá hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lagt áherslu á upplýsingagjöf til ferðamanna. Það hefur verið gert í samvinnu við sendiráð, ferðaþjónustu- og hagsmunaaðila sem koma að ferðamálum. Það eru ýmsar leiðir til að upplýsa ferðamenn um náttúruvá eins og samfélagsmiðlar, vefsíður og fjölmiðlar. Þegar hætta steðjar að, t.d. vegna eldgoss, eru send SMS-viðvörunarskilaboð í erlenda og innlenda farsíma í nágrenni hættusvæðis með upplýsingum um viðbrögð á íslensku og ensku. Ég hygg að heilmikil bragarbót sé að verða og endurnýjun, t.d. á möguleikum þessara SMS-sendinga, á næstu vikum.

Þá rekur Slysavarnafélagið Landsbjörg vefsíðuna safetravel.is á nokkrum tungumálum í samvinnu við almannavarnir og fleiri aðila en þar er hægt að nálgast upplýsingar um ýmis öryggismál, aðvaranir og hagnýtar upplýsingar fyrir ferðamenn.

Þessi mikli vöxtur í ferðaþjónustu hefur leitt til þess að verulega hefur orðið að breyta viðbúnaði almannavarna og ljóst er að grípa þarf til viðbragða mun fyrr en ella með tilliti til rýmingar og lokunar svæða. Ýmis svæði eru algjörlega berskjölduð ef til hamfara kemur, t.d. svæði þar sem vegalengdir eru miklar og viðbragðsgeta byggist á fáum einstaklingum.

Almannavarnayfirvöld á Suðurlandi hafa lagt í mikla vinnu við það sem þeir kalla áhættuminnkandi aðgerðir. Verði stór atburður í fámennum byggðum, þar sem fjöldi ferðamanna getur numið allt að þreföldum íbúafjölda, verður gríðarlegt álag á viðbragðsaðila. Það er kannski það sem hv. þingmaður var að vísa til þegar hann sagði að það væri alltaf sama fólkið sem kæmi að málum. Vissulega er gott að búa ekki við of mikla veltu í mannauði í þessum efnum, við þurfum líka að tryggja ákveðna þekkingu og reynslu. En það er um leið áskorun að sama fólkið komi alltaf að málum.

Að hluta til hefur verið brugðist við þessari áskorun með því að fjölga lögreglumönnum á Suðurlandi. Þá hefur verið lögð áhersla á hálendiseftirlit vegna aukins ferðamannastraums á svæði Bárðarbungu, t.d. í Holuhrauni, frá goslokum. En á Suðurlandi eru enn fremur margir fjölsóttir ferðamannastaðir auk hvalaskoðunar og mikillar umferðar um þjóðvegi. Ég er ekki að nefna Suðurland af því einu að það er kjördæmi hv. þingmanns heldur er það mjög vinsæll áningarstaður ferðamanna og áfangastaður.

Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða krossins gegna mikilvægu hlutverki í skipulagi almannavarna, bæði í leit og björgun og fjöldahjálp, en auk þeirra kemur fjöldi viðbragðsaðila að öllu viðbragði. Þeir sem starfa að almannavörnum eru meðvitaðir um það aukna álag og áskoranir sem hafa komið í ljós á undanförnum árum. Gríðarleg fjölgun ferðamanna og lenging ferðamannatímans felur í sér nýjar áskoranir og álag á viðbragðsaðila.

Almannavarnir munu á þessu ári hefja að nýju vinnu við greiningar á áhættu á landsvísu. Spurt er hvort mótuð hafi verið stefna til að bregðast við þessum aðstæðum. Ferðamálastofa hefur, í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, gert viðbragðsáætlun. Áætlunin segir fyrir um skipulag og samhæfingu aðgerða í náttúruvá og öðrum áföllum til að tryggja eins og kostur er öryggi ferðamanna á Íslandi með það að markmiði að tryggja skipulögð og samhæfð viðbrögð allra á neyðartímum.

Stefnumótun í almannavarna- og öryggismálum er til þriggja ára í senn samkvæmt lögum og er í höndum almannavarna- og öryggismálaráðs. Stefnan var fyrst fyrir árin 2015–2017 samþykkt af almannavarna- og öryggismálaráði í júní 2015. Þar eru settar fram 42 aðgerðir sem unnið hefur verið að í samráði við ábyrgðaraðila og nokkrar þeirra varða þau mál sem spurt er hér um. Dómsmálaráðuneytið vinnur að undirbúningi nýrrar stefnu og verður hún lögð fyrir almannavarna- og öryggismálaráð til samþykktar fyrir árslok 2019.

Ég vil geta þess í lokin að almannavarna- og öryggismálaráð kom saman til fundar eftir þó nokkurt hlé — nokkurra ára hlé — í upphafi þessa árs, minnir mig.