149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

viðbragðsgeta almannavarna og lögreglu í dreifðum byggðum.

472. mál
[17:52]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Það er margt sem er að breytast hratt hjá okkur, þar á meðal lifnaðarhættir okkar, fjölgun ferðamanna og annað slíkt, sem kallar á önnur vinnubrögð og breytt.

Ég fagna því sem ráðherra hefur bent okkur á að verið sé að gera í þessum málum. Það er náttúrlega fjölgun lögreglumanna, alveg gríðarlega mikilvægt atriði í að hækka öryggisstig. En svo tek ég ofan fyrir þeim einstaklingum sem standa alltaf vaktina allan ársins hring og eru í sjálfboðaliðavinnu.

Mig langar til að koma inn á einn eða tvo þætti varðandi öryggi. Nú vona ég og reikna með að hæstv. dómsmálaráðherra og þingmaður hafi áttað sig á því í hringferðinni sem nefnd var hér áðan að ekki er alls staðar nægilega gott símasamband um landið. Það er falskt öryggi falið í því. Ég held að við þurfum að gera virkilegt átak í því og ég veit að menn eru að skoða það, en ég bendi á það, auk þess sem ekki er hægt að treysta á útvarpssendingar. (Forseti hringir.) Það eru allt of margir bæir um allt land og svæði þar sem ekki næst í útvarp. Þess vegna er ekki hægt að treysta á það að Ríkisútvarpið sé sá öryggisventill sem það á að vera, komi eitthvað alvarlegt fyrir.