149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

viðbragðsgeta almannavarna og lögreglu í dreifðum byggðum.

472. mál
[17:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu sem leiðir af fyrirspurn um viðbragðsgetu lögreglu og almannavarna. Það er ljóst að mikil samhæfing er til staðar hér á landi á milli kerfa og stjórnvalda, sjálfboðaliða og íbúa, vítt og breitt um landið. Það er mikilvægt að halda áfram að þróa þá samhæfingu eins og komið hefur verið inn á.

Mig langar að leggja inn í þá umræðu mikilvægi landupplýsingakerfa og nákvæmra skráninga. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra er viðbúinn að svara hvort verið er að nota slík landupplýsingakerfi til að skrá t.d. atburði sem verða, dekkun farsímakerfa og annað slíkt, sem getur nýst mjög vel ef þetta er til í nákvæmum loftmyndagrunnum.

Eins langar mig að nefna örstutt mikilvægi bæja í byggð við þjóðvegina þar sem langt er á milli byggðra bóla, bæja eins og Grímsstaða á Fjöllum eða Hvítanes við Djúp.