149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

viðbragðsgeta almannavarna og lögreglu í dreifðum byggðum.

472. mál
[17:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær góðu umræður sem hafa farið fram um þetta mikilvæga málefni og tek undir að margt gott hefur gerst. Á þeirri braut þurfum við að halda áfram. Það þarf að halda áfram að fjölga viðbragðsaðilum til að draga úr álagi hjá þeim sem eru fyrir núna, svo að okkar góða kerfi bresti ekki.

Hér var komið inn á mikilvægi sjálfboðaliðanna í Landsbjörg, sem er rétt. Mikilvægi þeirra er gríðarlegt, það er ekki endalaust hægt að setja meiri verkefni á sjálfboðaliðana og hlutverkum fjölgar sífellt, eins og t.d. með björgunarsveitina í Öræfasveit sem er í senn slökkvilið, sjúkraflutningamenn, hún þarf að klippa á slysstað og sinnir hreinlega öllum hlutverkunum. Þegar fleiri verkefni koma á hvern og einn gefur eitthvað eftir.

Annað er líka mikilvægt, svo að upplýsingagjöfin virki þá verður vöktunin líka að verða meiri. Það er t.d. auðveldara að vakta framskrið á hlíð, af því að það fellur undir ofanflóðasjóð, heldur en eldgos, því að ekki er neinn hamfarasjóður til að dekka þá viðbragðsáætlun sem þarf þar.

Það er margt svona sem við þurfum að halda áfram að vinna í. Við þurfum að taka mið af því að þetta eru fámennir staðir sem takast á við áskorun sem er á við álag í stærstu þéttbýliskjörnum landsins. Þannig þarf þetta að byggjast upp áfram svo að okkar góða kerfi sem við höfum í dag haldi áfram að (Forseti hringir.) þróast en brotni ekki niður.