149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

skýrsla um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

551. mál
[18:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þann 13. mars 2017 var samþykkt skýrslubeiðni til ráðherra mannréttindamála um hvernig hafi verið staðið að innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt 54. gr. þingskapa skal ráðherra ljúka skýrslugerðinni innan 10 vikna og skal skýrslan þá prentuð og henni útbýtt meðal þingmanna á fundi. Samkvæmt því hefði skýrslan átti að berast Alþingi í lok maí 2017. Tímatakmörk voru sett á skýrslubeiðnir árið 1992 en áður voru engin tímatakmörk á slíkum beiðnum. Það má spyrja sig hvort tíminn sem er gefinn sé of stuttur en mín tilfinning er sú, út frá takmörkuðu úrtaki, að það taki yfirleitt mun lengri tíma en 10 vikur að svara skýrslubeiðnum. Því miður er ekki hægt að fá nákvæmt svar úr tölvulesanlegum skjölum þingsins því að skýrslur berast oft eftir að nýtt þing hefst og eru þá ekki skráðar sem þingskjal, alla vega ekki tengt skýrslubeiðninni. Þannig er ómögulegt að skoða sjálfkrafa hvort skýrslubeiðninni hafi verið svarað eða ekki, þá þarf að fletta því upp handvirkt. Mögulega er hægt að bera saman svartíma skýrslubeiðna við svartíma skriflegra fyrirspurna en samkvæmt lögum um þingsköp skulu svör við þeim að jafnaði berast eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Töluleg greining þar sýnir að á yfirstandandi þingi er meðalsvartími rúmlega tvöfaldur sá leyfilegi tími sem kveðið er á um í þingskapalögunum. Ef miðað er við tvöfaldan tíma hefði átt að skila skýrslu um innleiðingu barnasáttmála í byrjun ágúst á síðasta ári.

Þann 1. júní á síðasta ári var frétt frá ráðuneytinu um að vinnuhópur hefði verið skipaður til að vinna að skýrslu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Vinnuhópurinn var skipaður eftir að skýrslunni átti að hafa verið skilað. Nú falla fyrirspurnir og skýrslubeiðnir niður þegar kosningar fara fram og þegar nýtt þing tekur við, það er mismunandi. Tíminn sem ráðherra hafði til að skila skýrslunni, þrátt fyrir óvæntar kosningar, var hins vegar mjög rúmur.

Því spyr ég ráðherra: Hvers vegna var skýrslu um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Alþingi samþykkti beiðni um á 146. löggjafarþingi, ekki skilað til þingsins innan lögbundins frests? Hversu langt er vinnan við skýrsluna komin í ráðuneytinu? Því væntanlega hefur vinnuhópurinn gert eitthvað, það voru gefin ákveðin tímatakmörk til að svara umsagnarbeiðnum sem sú nefnd sendi af stað. Áætlar ráðherra að skýrslan verði kláruð og þá hvenær?