149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

skýrsla um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

551. mál
[18:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að hann óskaði eftir umræddri skýrslu í mars 2017. Dómsmálaráðuneytið vann að slíkri skýrslu í samstarfi við velferðarráðuneytið. Skýrslubeiðnin var reyndar afar umfangsmikil og varð því fljótlega ljóst að ekki yrði hægt að skila henni á réttum tíma. Það var tilkynnt Alþingi með tölvupósti í maí 2017. Haustið 2017 var þing rofið og kosið aftur. Á sama tíma áttu sér stað miklar breytingar innan dómsmálaráðuneytisins. Varð það til þess að skýrslan var ekki kláruð.

Það lá hins vegar fyrir að íslenska ríkinu bar að taka saman skýrslu um innleiðingu barnasáttmálans árið 2018, það lá fyrir 2017, í samræmi við skuldbindingu samkvæmt 44. gr. sáttmálans. Sú vinna, sem var í samræmi við þessar skuldbindingar, var sett í forgang, enda ætti hún að gefa skýra mynd af innleiðingu sáttmálans hér á landi. Ég skipaði vinnuhóp í apríl 2018 með fulltrúum frá dómsmálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, félagsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og utanríkisráðherra. Þetta er sem sagt vinnuhópur sem var settur á laggirnar til að undirbúa skýrslu sem okkur bar að skila árið 2018, en ekki vegna skýrslubeiðni hv. þingmanns. Þessi vinnuhópur átti auk þess samráð við stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi þar sem sitja fulltrúar allra ráðuneyta.

Skýrslan um framkvæmd barnasáttmálans var unnin samkvæmt leiðbeiningum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og var leitast við að gefa sem réttasta mynd af því hvernig barnasáttmálanum hefur verið framfylgt á árunum 2009–2018. Vinnuhópurinn átti víðtækt samráð við gerð skýrslunnar, bæði við börn og fullorðna. Til að tryggja að sjónarmiðum barna væri nægilega vel komið á framfæri var einnig ákveðið að vinna sérstaka barnaskýrslu þar sem tekin hafa verið saman viðhorf barna til framkvæmdar barnasáttmálans á Íslandi.

Drög að þessum skýrslum tveimur voru birt á samráðsgátt Stjórnarráðsins í október sl. og lauk vinnuhópurinn við að vinna úr athugasemdum í nóvember. Að því loknu voru skýrslurnar sendar í þýðingu og voru þær loks sendar til Sameinuðu þjóðanna nú í byrjun febrúar. Þessar tvær skýrslur eru báðar aðgengilegar á vef dómsmálaráðuneytisins og ættu að veita hv. þingmanni svar við þeirri skýrslubeiðni sem hann sjálfur lagði fram. Ég vil hins vegar árétta að skýrslubeiðni af þessu tagi getur verið ákaflega umfangsmikil og í þessu tilviki var hún það, enda lá meira en ársvinna allra ráðuneyta að baki þegar þessar tvær skýrslur lágu fyrir.

Það er spurt: Hversu langt er vinnan við skýrsluna komin? Eins og liggur fyrir hafa verið unnin drög að skýrslu sem svara átti fyrirspurn frá þinginu en voru að einhverju leyti notuð við gerð skýrslunnar til barnaréttarnefndar, þ.e. hafist var handa við að svara skýrslubeiðni hv. þingmanns og sú vinna nýttist í þeirri skýrslugerð sem nú liggur fyrir. Í ljósi þess að tekin hefur verið saman heildstæð skýrsla um framkvæmd barnasáttmálans og sérstök barnaskýrsla um sama efni tel ég ekki ástæðu til að taka saman aðra skýrslu um innleiðingu barnasáttmálans. Þessar tvær skýrslur eru á vef dómsmálaráðuneytisins. Að lokum er rétt að benda á að sá vinnuhópur sem skipaður var til að skrifa skýrsluna um barnasáttmálann mun starfa áfram, mun fylgja skýrslunni eftir og bregðast við ef athugasemdir berast frá barnaréttarnefnd í framkvæmd.

Einnig er rétt að nefna að stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna var formlega skipaður í byrjun þessa árs af félags- og barnamálaráðherra og á dómsmálaráðuneytið fulltrúa í þeim hópi. Hlutverk þessa hóps er m.a. að móta stefnu Íslands, framtíðarsýn og markmið í málefnum barna, og mun kortlagning á innleiðingu barnasáttmálans vera hluti af þeirri vinnu.

Ég vona að hv. þingmaður geti kynnt sér þá vinnu sem fyrir liggur og haft gagn af, ef ekki gaman líka.