149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

skýrsla um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

551. mál
[18:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Mæli hann manna heilastur, hv. þingmaður, þegar hann segir að kannski væri skynsamlegt að þingið fengi hugmynd um það hversu mikill tími færi í að svara skýrslubeiðnum, eða jafnvel fyrirspurnum, skriflegum fyrirspurnum. Já, ég held að það væri afbragð að menn legðu það aðeins niður fyrir sér, könnuðu það og reyndu að leggja mat á það hversu mikill tími og mannauður fer í að svara fyrirspurnum og þá mögulega þannig að ráðuneytið geti óskað eftir víðtækari fresti eða jafnvel fjárframlögum, auknum fjárheimildum, til að vinna slíkar skýrslur. Það liggur fyrir að ráðuneyti — ég ætla ekki að segja að þau séu að sligast, það er nú kannski óvirðulegt að segja það — eiga fullt í fangi með að svara fyrirspurnum héðan, oft og tíðum einföldum fyrirspurnum sem þingmenn gætu kannski aflað sér upplýsinga um sjálfir, jafnvel fyrirspurnum sem væri kannski skemmtilegra að hafa til munnlegs svars frekar en skriflegs. Svo eru aðrar fyrirspurnir sem kalla á svör frá fjölmörgum aðilum, fjölmörgum undirstofnunum, sem hafa ekki endilega gert ráð fyrir að þurfa að standa í upplýsingagjöf sem þessari, eða upplýsingaöflun jafnvel. Þær stofnanir þurfa kannski sjálfar að afla upplýsinga hjá allt öðrum einstaklingum.

Ég held að það væri vel þess virði að endurskoða þetta allt; hv. þingmaður á sjálfur sinn þátt í þessu með sínar fyrirspurnir. Það er þannig í dómsmálaráðuneytinu að nú er tíminn sem fer í það að svara fyrirspurnum skráður og kostnaður metinn í kjölfarið.

Ég vil fá að nefna það rétt í lokin að óski þingmaðurinn eftir því að fá að ræða þessa tilteknu skýrslu finnst mér sjálfsagt að hann kalli eftir því. Það kallar ekki á að gera þurfi aðra skýrslu. Ég mun þá bara svara þeirri skýrslubeiðni með fyrirliggjandi skýrslu.