149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að verja þessum stutta tíma í störfum þingsins til þess að tala um verkalýðsbaráttuna, til að tala um það grafalvarlega ástand sem við horfumst nú í augu við í samfélaginu í dag. Á fimmtudaginn kemur í ljós til hvaða aðgerða verður gripið. Ég hafði samband við ágætan kunningja, Vilhjálm Birgisson, 1. varaforseta Alþýðusambandsins, núna rétt áður en ég kom upp í störfum þingsins. Ég vísa beint í það sem haft var eftir honum í fjölmiðlum: Staðan var alvarleg þá, en drottinn minn dýri, hún er alvarleg núna, segir Vilhjálmur Birgisson. Hann gekk út af fundi með ríkisstjórninni og aðilum vinnumarkaðarins í Stjórnarráðinu nú í hádeginu. Hvers vegna?

Það er með ólíkindum ef það er virkilega þannig núna … Ég ætla að vísa meira í Vilhjálm. Hann spyr: Hvar eru þingmenn Vinstri grænna, sérstaklega í ljósi þess að krafa verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjarasamningum er nákvæmlega sú sama og frumvarp þingmanna Vinstri grænna hljóðaði upp á hér fyrir nokkrum árum síðan? Það er að lágmarkslaun dugi fyrir framfærsluviðmiðum sem velferðarráðuneytið hefur gefið þannig að fólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

Það er sorglegt að sjá hvernig þingflokkur og ráðherrar Vinstri grænna breiða nú sængina upp fyrir haus í ljósi þess að nú hafa þeir raunverulegt tækifæri, hæstv. forseti, til að standa með íslensku verkafólki.

Virðulegi forseti. Það er nú eiginlega kominn tími til að nudda glýjuna úr augunum og koma með raunverulegar aðgerðir til stuðnings við það sem koma skal, því að það er ekki eins og að það sem við erum að horfast í augu við núna sé alveg spánnýtt. Það er búið að eiga sér aðdraganda. Við höfum vitað það í marga mánuði. Það eina sem verið er að kalla eftir er lágmarksréttlæti. Það eina sem þessi ríkisstjórn er beðin um er: Hættið að skattleggja fátækt. Því að það er nákvæmlega það sem hér er verið að gera og virðist enga bragarbót eiga að gera á í þeim efnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)