149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að vekja máls á stöðu mála hvað varðar heildarendurskoðun stjórnarskrár. Hv. þingmaður spurði hvar verkefnið stæði en eins og kunnugt er lagði ég fram minnisblað í upphafi þessa ferlis sem hefur verið á borðum formanna og fulltrúa flokkanna. Raunar lagði ég fram endurskoðuð minnisblöð nýlega til að fara yfir áframhaldið því að þetta er verkefni sem hefur tekið breytingum með fleiri fundum. Grundvallarhugmyndin er að núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili og vinnunni áfangaskipt og að í vinnunni verði höfð hliðsjón af þeirri miklu vinnu sem unnin var bæði í starfi stjórnarskrárnefndar 2005–2007 og 2013–2016 en ekki síður á vettvangi stjórnlaganefndar, stjórnlagaráðs og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í kjölfarið og einnig með hliðsjón af þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem hefur orðið um stjórnarskrárbreytingar í kjölfarið.

Í minnisblaðinu kom fram hvernig þeim verkefnum væri skipt og ég get upplýst að við erum búin að nýta töluverðan tíma í að ræða bæði þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valdheimilda, forsetakaflann og framkvæmdarvaldið og breytingarákvæði stjórnarskrár. Öll þau verkefni hafa ýmist verið rædd einu sinni eða oftar og eru í einhvers konar ferli. Hugsunin var sú að á næsta kjörtímabili yrðu teknir fyrir kaflar um Alþingi, kosningar, dómstóla, þjóðkirkju, mannréttindaákvæði og inngangsákvæði.

Hins vegar sæi ég ekkert því til fyrirstöðu að því verkefni yrði flýtt, ef vilji væri fyrir því í formannahópnum, og hlutirnir gerðir hraðar. Ég hefði ekki á móti því sjálf.

Við höfum átt tíu fundi og uppleggið hefur verið að reyna að ná sem breiðastri samstöðu um þau ákvæði sem verða lögð fram. Það verður kannski aldrei alveg fullkomin samstaða um breytingarnar en mikilvægt er að við byggjum á því sem gert hefur verið og að við reynum að ná samstöðu.

Af því að hv. þingmaður nefnir hvaða tækifæri felist í ferlinu hvað varðar samráð við almenning þá er það svo að auðvitað eru ákvæðin mismikið rædd. Við höfum t.d. rætt auðlindaákvæði í stjórnarskrá nánast, með litlum hléum, allt frá árinu 2000. Ef við horfum til almennrar umræðu um umhverfisákvæði og þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði eru það ákvæði sem hafa verið mikið rædd meðal almennings. Ég myndi segja að til að mynda meðferð framkvæmdarvalds sé minna rædd almennt meðal almennings, ef ég tek dæmi af handahófi.

Hugsunin er sú að við munum hafa eins mikið gagnsæi í störfum okkar og mögulegt er. Við höfum verið gagnrýnd fyrir það að gagnsæi sé ekki nóg og því höfum við reynt að birta fleiri pappíra úr vinnu okkar núna á vefsvæði okkar. Síðan höfum við kynnt okkur helstu valkosti við almenningssamráð þar sem er hægt að fara ýmsar leiðir. Hægt er að gera hefðbundna viðhorfskönnun. Hægt er að gera svokallaða rökræðukönnun, sem hv. þingmaður vísaði til. Það er líka hægt að hugsa sér svokallaða lýðvistun, sem er kölluð á ensku „crowd sourcing“, þar sem almenningi gefst kostur á að setja fram hugmyndir tengdar stjórnarskrá og rökræða þær, gjarnan með þátttöku stjórnmálamanna og sérfræðinga.

Það sem við höfum rætt að gera er að setja af stað undirbúning hefðbundinnar viðhorfskönnunar þar sem viðhorf Íslendinga til stjórnarskrárinnar og endurskoðunar hennar verða rannsökuð. Við höfum rætt við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um það verkefni. Síðan er hugsunin að fram fari rökræðukönnun, sem er ekki endanlega tímasett en við erum að hugsa það kannski ár fram í tímann, þar sem við myndum byggja á niðurstöðum viðhorfskönnunarinnar.

Hv. þingmaður vísaði í góðan fund þar sem formönnum og fulltrúum flokka var boðið að hitta erlenda sérfræðinga á því sviði en við hv. þingmaður vorum, held ég, ein þar ásamt verkefnisstjóra verkefnisins, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Til að skýra það er þar hægt að fá fámennara úrtak hvaðanæva af landinu, kannski 300 manns, þar sem fjallað er um tiltekið mál. Þetta virkar þannig að þátttakendur fá boð um að taka þátt í rökræðufundi um tiltekin mál, þeir eru látnir svara sömu könnun og þeir svöruðu áður en fundurinn hefst og svo svara þeir henni í þriðja sinn áður en fundinum lýkur. Þannig má kanna hvernig viðhorf manna breytast eftir því sem þeir kynnast málinu, fá tækifæri til að ræða við sérfræðinga og eiga samtal um viðfangsefnið í smærri hópi. Þegar við erum spurð í almennri viðhorfskönnun byggjum við á þeim viðhorfum sem við höfum fyrir fram og erum kannski ekki mikið búin að ígrunda og því er rökræðukönnunin ákveðið tæki til að eiga almenningssamráð um tiltekin viðfangsefni og kanna hvert rökræðan leiðir okkur.

Mér finnst þetta sjálfri afskaplega spennandi tæki. Það væri mjög spennandi fyrir stjórnvöld að prufa að beita slíku tæki, sem hefur verið nýtt víða. Við höfum kynnst dæmum um það, bæði frá Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta var til að mynda nýtt á Írlandi við úrlausn flókinna mála sem kölluðu á mikla umræðu. Ég gæti trúað því að þetta yrði ekki aðeins mikilvægt fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar heldur mikilvægt (Forseti hringir.) fyrir stjórnvöld að reyna slíkar nýjar aðferðir í almenningssamráði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)