149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að vekja máls á stjórnarskránni. Þetta er eitthvað sem við, stjórnmálafólk á Alþingi, skuldum þjóðinni að fara í af fullri alvöru. Af hverju? Jú, vegna þess að okkur hefur einhvern veginn ekki tekist að fara í þessa heildarendurskoðun og klára verkið frá 1874 þegar vinnan hófst. Við skuldum þjóðinni að klára þetta.

Alþingi samþykkti ályktun um heildarendurskoðun. Stjórnlagaráð var skipað 25 valinkunnum einstaklingum sem voru fyrst kosnir af almenningi og svo af meiri hluta þings. Stjórnlagaráð fór í verkið af einurð og skilaði Alþingi nýrri stjórnarskrá sem lögð var fyrir þjóðina þannig að hún gæti sagt af eða á hvort byggja ætti á því plaggi. Og þjóðin kaus: Já, takk. Þjóðin ákvað að styðjast skyldi við það. Vinnan hélt áfram hér á þingi.

En hvar erum við nú stödd? Nú erum við þar stödd að nefnd skipuð formönnum flokka sem eiga sæti á Alþingi hefur fundað að ég held tíu sinnum á 14 mánuðum. Síðast fréttum við af því að ekki væru endilega allir sammála því að það ætti að fara fram heildarendurskoðun á stjórnarskránni þó að það hafi nú verið stefnan allt frá 1874. Nú kann að vera að einstaka þingmönnum, jafnvel formönnum flokka, finnist engin þörf á þessu. En við skulum ekki gleyma því að endurskoðun stjórnarskrár hefur verið í gangi linnulaust allan þennan tíma. Lögð voru fram 36 mál bara á árunum 1874–1942 til breytingar á stjórnarskránni.

Herra forseti. Hér um daginn var lagt fram nýtt frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Ég held að sómi væri að því að við myndum ryðja brautina og koma því máli í gegnum þingið. (Forseti hringir.) Það verður aldrei hin fullkomna sátt um breytingar á stjórnarskránni enda er ekki um að ræða verk sem verður endanlegt og mun aldrei verða breytt aftur. Gerum þetta bara.