149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Það fer ekki á milli mála að það eru mjög ólíkar skoðanir milli flokka og þingmanna á því hvað felist í þeirri vinnu sem nú stendur yfir og hvert hún eigi að leiða. Það er því kannski ekki úr vegi að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvert sé álit hennar á þeirri vinnu. Ég hafði skilið þetta sem svo að hugmyndin væri sú að nýta þá staðreynd að samstaða virtist vera um allmargt er varðaði stjórnarskrána og leita að því sem helst væri samstaða um, finna það sem menn gætu náð saman um og ráðast í breytingar í samræmi við það. En svo sjáum við hér, og heyrum á umræðunni, mjög ólíka sýn á þeirri vinnu og að því marki að a.m.k. einn flokkur hefur lagt fram eigin tillögu að stjórnarskrá. Þá spyr maður: Á hvoru á að taka mark, frumvarpi Pírata um nýja stjórnarskrá eða vinnu þeirra í hópi formanna við endurskoðun stjórnarskrár eða þeirra atriða sem menn geta náð saman um þar?

Spurningin er því: Hvert á þessi vinna að leiða? Hvert er markmiðið með henni?

Er þetta kannski bara sýndarsamráð til að geta sagst hafa farið í samráð milli flokka og samráð við almenning, en ætlunin er svo að mynda einhvers konar meiri hluta um þær breytingar sem sá meiri hluti, sem verður ekkert endilega stjórnarmeirihlutinn miðað við umræðuna, gæti náð?

Það er mikilvægt fyrir fulltrúa flokkanna að vita þetta. Til hvers er sú vinna sem hæstv. forsætisráðherra heldur utan um?