149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka það til mín það sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson lauk ræðu sinni með áðan, að við teldum að við ættum stjórnarskrána. Það er nokkuð ljóst að án aðkomu Alþingis, eftir að þjóðin hefur greitt atkvæði um hana, yrði lítið um breytingar á stjórnarskrá. En það er rétt að þjóðin á að hafa orðið og þjóðin hafði talað, hafði sagt sína meiningu um það hvað hún vildi gera við stjórnarskrána.

Ef við lítum pínulítið í baksýnisspegilinn er staðreyndin sú að við höfum í rauninni aldrei eignast eigin stjórnarskrá. Við fengum hina sérstöku stjórnarskrá svokölluðu 1874 frá konungi Danaveldis á þeim tíma. Hún var nánast danska stjórnarskráin óbreytt í rauninni nema út hafði verið tekið hugtakið konungur og í staðinn fengum við hugtakið forseti. Við höfum gert ýmislegt til að bæta stjórnarskrána okkar og henni hefur verið breytt. Sérstaklega þurftum við að taka mjög svo á mannréttindakaflanum á sínum tíma eftir lögleiðingu mannréttindasáttmálans í kringum 1994. Þetta er langhlaup, þetta er ekki hástökk. Við tökum ekki stjórnarskrána, grundvallarlög okkar, og stokkum upp á einni nóttu. Það er nokkuð ljóst.

Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan, það er morgunljóst að það sem við erum að gera í þessari nefnd, sem hefur verið skipuð af formönnum allra stjórnmálaflokka eða fulltrúum þeirra í stað — sú nefnd er að vinna góða vinnu. Mín tilfinning er mjög góð gagnvart því. Ég held að við séum á réttri leið og við munum virða og virðum þjóðarviljann. Það er þess vegna sem þau fjögur atriði eru undir núna og við ræðum sérstaklega í stjórnarskrárnefndinni, því að þau lúta eingöngu að þeim fjórum atriðum sem þjóðin greiddi svo augljóslega atkvæði með á sínum tíma. Ég er því bara áfram jafn bjartsýn og brosandi og ég var í ræðu minni á undan og það er ekki spurning um hvort (Forseti hringir.) við séum að breyta heldur bara hvenær.