149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

26. mál
[15:09]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá tækifæri til að bæta örlitlu við og þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir þetta. Það er stundum þannig þegar maður lítur á framkvæmd laga og hefur upplifað hana, sem ég gerði sjálf þegar ég starfaði sem lögreglumaður, þá heldur maður að mistökin í lögunum séu skýrari, að það sé ljóst hvað sé að þeim. Síðan les maður lögin og veltir fyrir sér: Hvernig getur framkvæmdin verið eins og hún er í dag, dómaframkvæmdin miðað við þau lög sem eru hér á borðinu?

Ég ítrekaði í greinargerð með frumvarpinu að ekki megi líta fram hjá því að röskun á friði er nægjanlegt skilyrði til að fá nálgunarbann. Það virðist oft vera, þegar ég kynnti mér dómaframkvæmdina, að sett séu strangari skilyrði en lögin kveða á um — þrátt fyrir tiltölulega lágan þröskuld ákvæðisins, sem ég breytti ekki í þessum lögum. Ég ítrekaði það enn frekar í greinargerðinni, af því að nálgunarbann á að bæta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis og annarra þolenda ofbeldis og ofsókna, að röskun á friði sé nægjanlegt tilefni. Ég vona að með þessum breytingum verði litið sérstaklega til þess.